Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Eigendur Skólamatar keyrðu til Hafnarfjarðar til að vaska upp
Stjórnendur og starfsfólk Skólamatar fann lausnir þegar heita vatnið hætti að renna um tíma. Fanný, Jón og faðir þeirra Axel ásamt nokkrum starfsmönnum tóku á því í uppvaskinu.
Föstudagur 23. febrúar 2024 kl. 06:02

Eigendur Skólamatar keyrðu til Hafnarfjarðar til að vaska upp

„Jú, þetta heitir líklega að hlaupa í öll störf. Við áttum góða stundir saman fjölskyldan í uppvaskinu,“ segir Fanný Axelsdóttir en eigendur Skólamatar keyrðu til Hafnarfjarðar á sunnudaginn, settu á sig svuntuna og vöskuðu upp óhrein mataráhöld og leirtau svo hægt væri að halda starfsemini gangandi í komandi viku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á fimmtudaginn í síðustu viku þegar eldgos blossaði við Sundhnúk og flæddi yfir heitavatnslögn sem leiddi af sér heitavatnsleysi á Suðurnesjum varð fjölskyldan í Skólamat að hugsa út fyrir kassann og finna leiðir til að halda starfseminni áfram svo hægt væri að afgreiða skólamáltíðir í leik-og grunnskólum sem fyrirtækið þjónustar.

Uppvöskunarvélar og önnur tæki nýta heitt vatn ásamt rafmagni og virkuðu því ekki í heitavatnsleysinu.

„Þegar ljóst var að hitaveitan kæmist ekki í gang um helgina var brugðið á það ráð að flytja óhrein mataráhöld og leirtau í annað eldhús á höfuðborgarsvæðinu. „Vinir okkar í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði buðust til að lána okkur uppvöskunaraðstöðu og þar var vaskað upp allan sunnudaginn svo framleiðsla og starfsemin gæti haldið áfram í vikunni,“ segir Fanný. Eigendur Skólamatar þau Axel, Jón og Fanný fengu því nokkra starfsmenn með sér í verkið og allt gekk að óskum.

Hrein áhöld og leirtau voru flutt aftur til Reykjanesbæjar og starfsemin gekk snurðulaust fyrir sig á mánudeginum þrátt fyrir erfiðar aðstæður, heitavatnsleysi, ekkert rafmagn og kulda í öllum húsum á svæðinu.

Það er óhætt að segja að starfsfólk Skólamatar hafi sýnt útsjónarsemi og lausnamiðaða hugsun svo þetta væri framkvæmanlegt. Börn á Suðurnesjum fengu því hollan mat í skólum og leikskólum strax á mánudag en skólahald hófst þá á lang flestum stöðum á Suðurnesjum.

„Á sunnudeginum leituðu svo til okkar leiksskólastjórar í Reykjanesbæ sem alla jafna elda matinn sjálf í sínum leikskóla.  Vegna skorts á rafmagni útvegaði Skólamatur þeim tilbúnar heimalagaðar fiskibollur á bolludaginn og var mikil gleði og ánægja með bollurnar og skjót viðbrögð Skólamatar,“ segir Fanný Axelsdóttir, mannauðsstjóri hjá Skólamat en fyrirtækið framleiðir um 15 þúsund máltíðir alla virka daga.