Eigendur kaupi eignir gegn yfirtöku skulda
Rekstrarráðgjafar hafa undanfarið mótað tillögur um framtíð Fasteignar ehf og leggja þeir til að stjórn félagsins hefji undirbúning að því fyrir leigjendur að kaupa leigueignir gegn yfirtöku skulda. Er það sú leið sem helst er talin fær, samkvæmt því sem fram kom í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ sl. þriðjudag. Munu þau sveitarfélög sem hlut eiga í fasteign fjalla um þá tillögu á næstunni.
Ólíklegt er að Eignarhaldsfélagið Fasteign (EFF) standi að byggingaframkvæmdum við núverandi efnahagsástand og því endurmeta eigendur félagsins nú kosti þess að vera í félaginu. Stjórn félagsins hefur lagt til að skoðaðar verði leiðir til að semja við lánadrottna um lækkun útgjalda. Einnig að kannaðir verði kostir og gallar þess að sérhver eigandi taki yfir lán að baki eignum sem þeir leigja af EFF.
Árni sagði að um margt gæti þetta verið álitlegur kostur fyrir Reykjanesbæ sem gæti náð hagstæðum samningum við núverandi aðstæður þegar vextir væru í sögulegu lágmarki. Afborganir og rekstur gætu þannig verið umtalsvert lægri heldur en leigugreiðslurnar til Fasteignar, ólíkt því sem verið hefði árið 2008. „Við höfum ítrekað sagt að þetta félag og tilurð þess er ekkert trúaratriði,“ sagði Árni.
Mikil umræða varð á bæjarstjórnarfundinum um málefni Fasteignar og eignaraðild Reykjanesbæjar að félaginu. Stóð umræðan yfir á aðra klukkustund um þetta helsta bitbein andstæðra afla í bæjarmálapólitíkinni í Reykjanesbæ.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar lögðu fram bókun þar sem fram kom hörð gagnrýni á meirihlutann vegna þess sem þeir kalla „grafalvarlega stöðu“ Fasteignar sem blasi við, nú þegar ársreikningur félagsins liggur fyrir.
„Nú liggur fyrir að á sama tíma og sjálfstæðismenn fullyrtu um hagkvæmni Fasteignar og verulegan hagnað, þá sjá endurskoðendur fyrirtækisins ástæðu til þess að setja fyrirvara um rekstrarhæfi félagsins í áritun sinni við ársreikninginn fyrir árið 2009. Í framhaldi má spyrja sig hvort eitthvað hafi verið að marka skýrslu Capacent sem birtist skyndilega í miðri kosningabaráttu og þessi atriði voru hvergi nefnd,“ spyrja bæjarfulltrúar Samfylkingar í bókun sinni.
Árni tók sagði umrædda skýrslu unna af bæjarráði sameiginlega og því væri rangt að halda því fram að hún hefði verið kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins. Hún hefði verið afrakstur sameiginlegrar vinnu minni- og meirihluta í bæjarráði til að fá botn í þessa hluti. Skýrslan hefði sýnt fram á að hagstæðara hefði verið fyrir Reykjanesbæ að vera í Fasteign á þeim tíma. „Hins vegar verðum við að þora að taka stöðuna á hverjum tíma,“ sagði Árni. Hann benti á að félagið hefði skilað hagnaði frá stofnun þess og væri í skilum við lánastofnanir. Hins vegar væri sú hætta fyrir hendi að einstakir eigendur hættu að geta greitt leigu til félagsins og benti á Álftanes og Háskólann í Reykjavík sem dæmi.
Ljósmynd: Oddgeir Karlsson