Egilson/A4 átti lægsta tilboðið í námsgögn
- rúmlega fjórtán milljónum undir kostnaðaráætlun
Egilson/A4 átti lægsta tilboðið í örútboði Reykjanesbæjar og Ríkiskaupa á námsgögnum fyrir grunnskóla Reykjanesbæjar. Tilboðið var 65% lægra en kostnaðaráætlun Reykjanesbæjar hljóðaði upp á, sem var tæplega 22 milljónir króna fyrir sex grunnskóla.
Aðilum innan Rammasamnings ríkisins var boðin þátttaka í örútboðinu og skiluðu þeir allir inn tilboðum. Fyrirtækin eru Rekstrarvörur, Múlalundur og Penninn, auk A4. Öll tilboðin voru undir kostnaðaráætlun, lægsta 7.652.760 kr. og hæsta 16.735.532 kr. Mikil ánægja er með ávinning örútboðsins sem er rúmlega 14 milljónir króna og langt umfram væntingar.
Reykjanesbæ mun frá og með næsta hausti bjóða nemendum í grunnskólum bæjarins gjaldfrjáls námsgögn til afnota. Það er fyrsta stóra sveitarfélagið til að gera slíkt, en Ísafjarðarbær hefur gert það um árabil og Sandgerðisbær byrjaði fyrir síðasta skólaár.
Vinnan við tilboðsgerðina og niðurstöður örútboðsins hjá Reykjanesbæ gæti orðið fordæmisgefandi fyrir önnur sveitarfélög sem kynnu að vilja bjóða gjaldfrjáls námsgögn. Fræðsluráð Akureyrar hefur t.a.m. lagt til að öllum nemendum í grunnskólum bæjarins verði veittur hluti nauðsynlegra námsgagna þeim að kostnaðarlausu. Málið hefur einnig komið til tals hjá Reykjavíkurborg.
Eins og áður hefur komið fram, þá styðja gjaldfrjáls námsgögn við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar hafa staðfest aðild sína að og undirstrikar jafnframt þá stefnu bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ að styðja vel við bakið á barnafjölskyldum. Ávinningur útboðsins er því ekki aðeins fjárhagslegur fyrir samfélagið í Reykjanesbæ heldur styður í leiðinni það að öll börn njóti jafnræðis í námi.