Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Eggjaprumpið“ mældist greinilega í Grindavík í dag
Fimmtudagur 20. desember 2018 kl. 17:32

„Eggjaprumpið“ mældist greinilega í Grindavík í dag

Grindvíkingar urðu rækilega varir við slæm loftgæði í dag þegar lykt sem minnir á „eggjaprump“ lagði yfir bæinn. Þar er um að ræða gastegundina H2S eða brennisteinsvetni. Gastegundina er að finna á háhitasvæðum og því má gera ráð fyrir að háhitasvæðið í Svartsengi sé sökudólgur dagsins.
 
Umhverfisstofnun hefur tekið í notkun nýja heimasíðu sem miðlar upplýsingum um loftgæði. Hlekkurinn á síðuna er loftgæði.is og þegar síðan var formlega kynnt í dag mátti sjá að í Grindavík voru loftgæði slæm en toppur var í mælingum á mælistöð við Nesveg í Grindavík. Mælirinn er á aðveitustöð á mótum Nesvegar og Grindavíkurvegar.
 
Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, taldi líklegustu skýringuna vera útblástur frá háhitasvæði. Jarðhræringar hafa einnig verið í nágrenni Grindavíkur. Þær geta losað gastegundina upp úr hrauninu og hún þannig komið fram á loftgæðamælum. Útblástur frá Svartsengi er hins vegar líklegri orsök mengunartoppsins sem mældist í dag en samkvæmt veðurmæli við Grindavíkurveg var hæg norðanátt, 1-2 m/s þegar mælistyrkur brennisteinsvetnis var svona hár.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024