Eggert Gíslason gerði Garðinn frægan
Eggert Gíslason, skipstjóri frá Kothúsum í Garði, er fyrsti einstaklingurinn sem fær nafn sitt á bautastein í Garði undir yfirskriftinni „HANN GERÐI GARÐINN FRÆGAN“.
Eggert fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir húsmóðir. Eiginkona Eggerts er Sigríður Regína Ólafsdóttir frá Kleifum í Ólafsfirði en börn þeirra eru Soffía Margrét, Gísli Árni, Hrefna Unnur og Ólafur.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla árið 1940 og lauk fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1949.
Eggert hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Hann varð aflakónur árið 1952 á Víði GK-510. Hann varð síldarkóngur árið 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955 til 1959.
Á bautasteininn er skráður starfsferill Eggerts þar sem m.a. kemur fram að vertíðina 1963-64 fékk hann þann verðmætasta afla sem komið hafði á fiskiskip á einu ári: 3200 tonn af síld í janúar og febrúar og 900 lestir af loðnu. 4000 lestir af síld um sumarið og svo 1534 lestir í þorsknót og ýsu í mars og apríl á vetrarvertíð, eða sem svarar 9.634 lestum upp úr sjó.
Eggert Gíslason var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmælinn til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun Asdic-fiskileitartækis en með Asdic-inu var hið fullkomna fiskileitartækið komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja í notkun kraftblakka á síldveiðum.
Meðfylgjandi myndir voru teknar við afhjúpun bautasteinsins á Garðskaga í gærdag. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson