„Ég þarf líka að vera einræðisherra og að vera harðstjóri“
-segir Guðjón Þórðarson nýráðinn þjálfari Keflavíkur í stuttu spjalli við Víkurfréttir.
Guðjón Þórðarson var formlega kynntur sem þjálfari knattspyrnuliðs Keflavíkur á fundi með fjölmiðlafólki, stjórnarmönnum og öðrum gestum í K-húsinu í gær.
Þar fór Guðjón yfir hlutverk sitt hjá félaginu og sagði starf knattspyrnustjór vera fjölþætt. Hann líkti starfinu við föðurhlutverkið þar sem þjálfari þyrfti að vera sínum mönnum innan handar í flestum málum en þó þurfti að sýna festu og ákveðni þar sem við ætti.
„Ég þarf líka að vera einræðisherra og þarf líka að vera harðstjóri,“ sagði Guðjón og lagði mikla áherslu á aga. Enda væri agi upphaf árangurs.
Guðjón sagðist einnig ánægður með þann mikla metnað sem hann sagði einkenna starf Keflavíkur og hlakkaði hann mjög til að fá tækifæri til að vinna með stjórnarfólki. „Ég einn og sér mun ekki ná árangri. Það sem skiptir máli er sú samstaða sem við búum til í kringum liðið. Það er lykilatriði til árangurs að við stöndum saman.“
Miklar væntingar fylgja Guðjóni hvert sem hann fer, enda segir ferill hans sína sögu. Hann segist þó ekki ætla að lofa neinu. „Ég ætla ekki að lofa tilum og ætla eki að lofa árangri, því það er aðeins eitt sem skiptir máli í fótbolta, það er að láta verkin tala. Við erum að leggja upp í langferð og í dag tökum við fyrsta skrefið.“
Í lok fundar spjallaði blaðamaður Víkurfrétta stuttlega við Guðjón.
Af hverju Keflavík?
Ég átti kost á mörgum störfum, en niðurstaða mín er sú að ég kem hingað í góða vinnuaðstöðu sem ég met mikils og tel mikilvægt til að ná árangri.
Hvað varð þess valdandi að þú kýst Keflavík fram yfir Grindavík?
Þegar þú skoaðr það er grundvallarmunur á aðstöðu. Aðstaðan í Reykjaneshöll er eitthvað sem ég lít mjög hýru auga og það mun gefa mér færi á að vinna og æfa án þess að vera veðri og vindum háður. Það er mjög mikilvægt fyrir mig.
Svo var það þannig að Grindvíkingar voru búnir að ráða þjálfara þegar ég tók endanlega þá ákvörðun að koma heim, en Keflvíkingar ekki.
Ertu búinn að kynna þér leikmenn Keflavíkurliðsins?
Ég er búinn að kynna mér þá og á eftir að kynnast þeim betur. Það sem ég hef heyrt afspurnar af þeim er ekki endinlega það sem ég mun draga ályktanir mínar af. Ég mun skoða mennina og gef öllum tækifæri á að sanna sig. Ef þeir eru nógu góðir þá eru þeir nógu gamlir.
Ég veit að hér er stór hópur af ungum og efnilegum strákum sem verður spennandi að vinna með. Ég vona að þeir bregðist vel við þeim aðferðum sem ég vil beita og svo sjáum við hvað það mun leiða af sér.
Nú þarf augljóslega að bæta leikmönnum við hópinn, hvenær mun koma hreyfing á þau mál?
Það er ekki mikið til á innlenda leikmannamarkaðinum, en ég hef ákveðnar innkomur erlendis sem ég get nýtt mér ef á þarf að halda og við munum skoða með hvaða hætti þessi mál munu þróast á næstu vikum og mánuðum.
Yrði þar um að ræða lánsmenn eða leikmenn á varanlegri grunni?
Það eru fyrst og framst uppi vangaveltur um að fá til liðsins leikmenn að láni en ekkert af þessu hefur verið ákveðið og verður unnið í samvinnu við stjórnina á næstunni. Þá verð ég að vera viss um það hvað ég er að sækja og verð því að vera búinn að gera mér glögga grein fyrir þeim leikmannahópi sem er þegar til staðar.
Ertu spenntur að taka við?
Já, ég bíð spenntur eftir fyrstu æfingunni sem verður þriðjudaginn 4. janúar.
Fá strákarnir þá að gera sér glaðan dag um áramótin áður en þú tekur við þeim?
Þeir eiga eftir að komast að því að er alltaf vænlegra að ganga hægt um gleðinnar dyr!