Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Ég opnaði bara flóðgátt“ - Styrmir safnar fyrir jólagjöfum
Þriðjudagur 17. desember 2013 kl. 09:20

„Ég opnaði bara flóðgátt“ - Styrmir safnar fyrir jólagjöfum

„Ég opnaði bara flóðgátt og það er allt yndislega fólkið sem fylgdi á eftir sem hefur gert þetta að því sem þetta er í dag,“ segir Styrmir Barkarson í Reykjanesbæ sem fékk litla hugmynd og framkvæmdi hana með vinum sínum á Facebook.

Styrmir ákvað að setja af stað söfnun fyrir skógjöfum á Facebook og fékk strax ótrúleg viðbrögð. Hann gaf upp reikningsnúmer og þegar fóru að berast fjárframlög og fyrirtæki tóku sig til og gáfu gjafir. Í gær fór svo Styrmir með yfir 500 gjafir til Keflavíkurkirkju en Velferðarsjóður Suðurnesja mun sjá um að útdeila gjöfunum á rétta staði.

Verkefninu er alls ekki lokið og Styrmir ætlar að halda áfram fram að jólum og lengur ef svo ber undir. Í gærkvöldi höfðu safnast vel yfir 300.000 krónur og fjöldi gjafa hafði einnig borist. Skógjafirnar hafa allar verið keyptar og næsta verkefni er að kaupa ýmsar aðrar jólagjafir fyrir börn og unglinga.

Styrmir segir að það vanti mikið jólagjafir fyrir unglinga og þá hallar verulega á stráka þegar kemur að gjöfum sem berast í svona safnanir.

„Eins og viðtökurnar hafa verið vil ég helst halda áfram svo lengi sem allt þetta yndislega fólk gerir mér það kleift. Þegar jólunum lýkur tekur ýmislegt annað við. Skorturinn varir allt árið þó jólin minni okkur illþyrmilega á hann. Það eiga t.d. ekki allir fyrir gjöfum til að taka með sér í bekkjarafmælin sem þeim er boðið í og svo fá ekki heldur allir afmælisgjafir. Og í upphafi skólaárs eru það pennaveskin og skemmtilegu strokleðrin sem eiga hug þeirra allan. Það er svo margt ef að er gáð,“ segir Styrmir Barkarson í samtali við Víkurfréttir.

Söfnunarreikningurinn er 0542-14-403565 á kennitölu 281080-4909

- Sjá nánar í Víkurfréttum á fimmtudaginn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024