Fréttir

Eftirlitsnefnd telur ekki hjá því komist að skipa fjárhaldsstjórn
Þriðjudagur 24. maí 2016 kl. 06:00

Eftirlitsnefnd telur ekki hjá því komist að skipa fjárhaldsstjórn

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga telur ekki hjá því komist að leggja til við innanríkisráðherra að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhaldsstjórn. Þetta kemur fram í bréfi nefndarinnar til Reykjanesbæjar, dagsett 18. maí. Bæjarstjórnin samþykkti á fundi sínum 3. maí með 7 atkvæðum gegn 4 að tilkynna Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að samningar við kröfuhafa væru ekki í sjónmáli, eftir viðræður sem staðið höfðu í 18 mánuði.

Í bréfi Eftirlitsnefndarinnar til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar kemur ennfremur fram að fjárhagsstaða Reykjanesbæjar sé erfið og að kröfuhafar hafi veitt greiðslufrest vegna tiltekinna skuldbindinga meðan viðræður milli þeirra og sveitarfélagsins hafi staðið yfir og ekki liggi fyrir hvernig Reykjanesbær hyggist standa að greiðslu þeirra skuldbindinga. Þá hafi aðgerðir til endurskipulagningar á fjárhag sveitarfélagsins ekki skilað nægjanlegum árangri og þrátt fyrir beitingu úrræða samkvæmt 83. - 85. gr. sveitarstjórnarlaga hafi ekki tekist að finna lausn á fjárhagsvanda Reykjanesbæjar. Í samræmi við ákvæði 77. gr. sveitarstjórnarlaga sé það mat nefndarinnar að fjármál Reykjanesbæjar séu komin í óefni. Mat eftirlitsnefndarinnar er að greiðslubyrði sveitarfélagsins umfram greiðslugetu sé svo mikil að ljóst sé að ekki muni rætast úr í bráð.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er veittur frestur til miðvikudagsins 25. maí til að koma athugasemdum eða frekari upplýsingum á framfæri, áður en endanleg ákvörðun verður tekin um það hvort sú tillaga verði lögð fyrir innanríkisráðherra að Reykjanesbæ verði skipuð fjárhaldsstjórn. 

-Frá bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ.