Efni frá kísilverksmiðjunni ekki í skaðlegum mæli
-Niðurstaða rannsókna NILU hafa borist Umhverfisstofnun og United Silicon
Efni frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík voru ekki í skaðlegum mæli í neinum sýnum sem tekin voru í íbúabyggð í námunda við verksmiðjuna, á lóð hennar og inn í henni, þar sem styrkleiki efna ætti að vera hvað mestur. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu United Silicon en niðurstöðurnar eru úr mælingum NILU, norsku loftrannsóknarstofnunarinnar, á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum.
Sýnin voru tekin á tímabilinu 21. maí til 23. júní nú í ár, en alls voru 200 efni mæld. Á meðal þeirra 35 efna sem hæst mældust var ekkert þeirra á þeim kvarða sem þykir óeðlilegur í úthverfi eða í þéttbýli. Vert er þó að taka það fram að á umræddu tímabili voru kvartanir til Umhverfisstofnunar vegna lyktar fremur fáar.
Niðurstöður rannsóknanna eru því þær að engin skaðleg efni finnist í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða. Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars að efnamælingarnar þyki dæmigerðar fyrir það sem þekkist utandyra yfir sumartíma í íbúðabyggð.
Efnastyrkur í ofnhúsi verksmiðjunnar var fremur lágur miðað við það sem þekkist í sams konar iðnaði, að því er segir í skýrslunni. Í síuhúsi, þ. e. reyksíu verksmiðjunnar, voru vísbendingar um lífrænt anhýdríð sem gæti valdið lykt og tímabundinni ertingu í öndunarvegi og augum, en síuhús er hluti hreinsibúnaðar verksmiðjunnar.
Í skýrslunni kemur fram að þó hafi ekki reynst unnt að mæla formaldehýði á umræddu tímabili. Umhverfisstofnun óskaði þó í sumar eftir greiningu á formaldehýði í nágrenni United Silicon og í útblæstri síuhúss fyrirtækisins ásamt mælingu á öðrum gastegundum. Umsjón mælinga var í höndum Efnagreiningar Keldnaholti/Nýsköpunarmiðstöðvar.
Karen Kjartansdóttir, talsmaður United Silicon, segir mikilvægast að vera viss um að öryggi íbúa á svæðinu og starfsmanna sé ekki ógnað og því séu niðurstæður mælinga sem þessara forgangsatriði. „Fyrir liggja tillögur frá NILU um frekari mælingar en það er ekki hægt að ráðast í þær nema leyfi fáist á því að ræsa verksmiðjuna á ný.“
Slökkt var á ofni verksmiðjunnar þann 1. september síðastliðinn að kröfu Umhverfisstofnunar.