Efnahagur Suðurnesjabæjar er traustur
Handbært fé 661,6 milljónir króna í árslok 2022
Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2022 var samþykktur samhljóða á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar þegar síðari umræða um reikninginn fór fram. Bæjarstjórn telur rekstrarafkomu ársins mjög viðunandi miðað við aðstæður og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins þeirra framlag í rekstri og starfsemi sveitarfélagsins við krefjandi aðstæður. Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2022 ber með sér að efnahagur sveitarfélagsins er traustur sem skapar forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa næstu misseri og ár. Auknar tekjur komu helst fram í meiri útsvarstekjum en áætlað var og endurspeglar það m.a. aukinn kraft í atvinnulífinu, auk þess sem fjölgun útsvarsgreiðenda skilaði auknum tekjum.
Heildartekjur A hluta bæjarsjóðs voru kr. 5.173,1 milljónir en í samanteknum reikningi A og B hluta kr. 5.450,7 milljónir. Heildargjöld A hluta voru kr. 4.676 milljónir og í samanteknum reikningi A og B hluta kr. 4.808,1 milljónir. Rekstrarafkoma fyrir afskriftir var kr. 497,2 milljónir í A hluta en kr. 642,6 milljónir í samanteknum reikningi A og B hluta. Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð að fjárhæð kr. 19,9 milljónir, rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A og B hluta er neikvæð um kr. 34,3 milljónir.
Heildareignir í samanteknum reikningi A og B hluta eru kr. 9.843,5 milljónir. Heildar skuldir og skuldbindingar eru kr. 5.616,5 milljónir. Lífeyrisskuldbinding hækkar frá fyrra ári og er kr. 1.264,4 milljónir í árslok 2022. Langtímaskuldir við lánastofnanir eru kr. 3.438,5 milljónir og næsta árs afborganir langtímalána verða kr. 250,5 milljónir. Eigið fé í samanteknum reikningi A og B hluta er kr. 4.227 milljónir.
Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum, eða skuldaviðmið A og B hluta er 67,07% en var 71,48% árið 2021. Hlutfallið hjá A hluta er 44,47% en var 46,97% árið 2021. Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki vera hærra en 150%.
Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði kr. 682,9 milljónum í veltufé frá rekstri, sem er um 12,5% af rekstrartekjum og kr. 430,3 milljónum í handbært fé frá rekstri, sem er 7,9% af rekstrartekjum. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum A og B hluta nam kr. 462 milljónum. Á árinu 2022 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð kr. 250 milljónir. Handbært fé lækkaði um kr. 81,2 milljónir frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2022 kr. 661,6 milljónir.
Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ þann 1. desember 2022 var 3.910 og hafði fjölgað um 166 íbúa frá fyrra ári, eða um 4,4%.
Mikil verðbólga með tilheyrandi hækkun fjármagnskostnaðar og rekstrargjalda leiddi af sér helstu frávik í rekstri miðað við fjárhagsáætlun ársins. Fjármagnsgjöld A og B hluta voru alls kr. 252,8 milljónum meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Hins vegar voru heildartekjur A og B hluta alls kr. 318,5 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrargjöld voru alls kr. 92,2 milljónum umfram áætlun. Auknar tekjur komu helst fram í meiri útsvarstekjum en áætlað var og endurspeglar það m.a. aukinn kraft í atvinnulífinu, auk þess sem fjölgun útsvarsgreiðenda skilaði auknum tekjum. Þá voru framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða A og B hluta varð því kr. 40,8 milljónum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.