Efnahagslegur styrkur Garðs mikill
– allar vaxtaberandi langtímaskuldir bæjarsjóðs í A hluta hafa verið greiddar upp
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs lýsir ánægju með góða niðurstöðu ársreiknings ársins 2014. „Niðurstöður rekstrar eru jákvæðari en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Aðgerðir til hagræðingar í rekstri, í kjölfar úttektar á rekstri sveitarfélagsins hafa skilað árangri. Bæjarstjórn bendir á þá jákvæðu staðreynd að vaxtaberandi langtímaskuldir bæjarsjóðs í A hluta hafa allar verið greiddar upp, langtímaskuldir A og B hluta eru alls um 64 milljónir króna. Efnahagslegur styrkur sveitarfélagsins er því mikill. Bæjarstjórn þakkar starfsfólki sveitarfélagsins vel unnin störf og þeirra framlag til jákvæðrar niðurstöðu í rekstri sveitarfélagsins árið 2014,“ segir í bókun bæjarstjórnar með ársreikningi fyrir árið 2014.
Rekstrartekjur námu kr. 989,4 milljónum samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð kr. 972,6 milljónum. Rekstrartekjur A hluta námu kr. 956,8 milljónum, en í fjárhagsáætlun voru rekstrartekjur A hluta áætlaðar kr. 941,2 milljónir.
Rekstrarafkoma bæjarsjóðs í A hluta, fyrir afskriftir og fjármagnsliði (framlegð) er neikvæð kr 79,6 milljónir, í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að afkoman væri neikvæð um kr. 177,6 milljónir. Rekstrarafkoma í samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta, fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð kr. 71,8 milljónir, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri afkomu kr. 61,2 milljónum.
Rekstrarniðurstaða ársins í A hluta, eftir afskriftir og fjármagnsliði, var neikvæð kr. 88,7 milljónir, en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu kr. 194,8 milljónum. Í samanteknum ársreikningi A og B hluta er rekstrarniðurstaða jákvæð kr. 30,6 milljónir, en í fjárhagsáætlun var rekstrarniðurstaða jákvæð kr. 3 milljónir.
Í yfirliti um sjóðstreymi kemur fram að veltufé frá rekstri í samanteknum reikningsskilum A og B hluta var kr. 80 milljónir og handbært fé frá rekstri kr. 110,5 milljónir. Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri væri kr. 103,7 milljónir og handbært fé frá rekstri kr. 100,2 milljónir.
Heildar eignir bæjarsjóðs í A hluta námu kr. 2.836,4 milljónum og heildareignir í samanteknum reikningi A og B hluta kr. 3.047,8 milljónum.
Í ársreikningi kemur fram að fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum í samanteknum reikningsskilum A og B hluta á árinu 2014 nam alls kr. 233,2 milljónum.
Heildar skuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs í A hluta voru kr. 454,6 milljónir og kr. 520 milljónir í samanteknum reikningi A og B hluta.
Engin ný langtímalán voru tekin á árinu 2014, en í ársreikningi kemur fram að greidd voru upp langtímalán að fjárhæð kr. 236 milljónir. Í árslok 2014 voru vaxtaberandi langtímaskuldir í samanteknum ársreikningi A og B hluta alls kr. 63,6 milljónir, engar skuldir eru við lánastofnanir í A hluta bæjarsjóðs.
Skuldahlutfall A og B hluta, skv. 2. tl. 64. gr. Sveitarstjórnarlaga nemur 28,4% af reglulegum tekjum, en var 3,4% í árslok 2013. Samkvæmt lögunum má þetta hlutfall vera að hámarki 150%.
Samkvæmt samkomulagi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga er gert ráð fyrir að jafnvægisregla í fjármálareglum sveitarstjórnarlaga verði uppfyllt árið 2017. Jákvæð rekstrarniðurstaða ársins 2014 er mikilvægur áfangi til að uppfylla jafnvægisreglu og vinnur bæjarstjórn að því markmiði að sveitarfélagið standist fjármálareglur laga að fullu í lok árs 2015.
Ársreikningur fyrir árið 2014 samþykktur samhljóða og áritaður af bæjarstjórn.