Efla starfsemina á afmælisári
- Krabbameinsfélag Suðurnesja 60 ára.
Krabbameinsfélag Suðurnesja er 60 ára í þessari viku en félagið var stofnað árið 1953 af félögum í Rotaryklúbbi Keflavíkur. Félagið er eitt af aðildarfélögum Krabbameinfélags Íslands og er eitt af fáum í þeim hópi sem rekur þjónustumiðstöð með fasta viðveru starfsmanns til þjónustu við fólk á svæðinu. Sigrún Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur er nýr starfsmaður félagsins í 40% stöðugildi en hún sinnir þjónustustörfum fyrir fólk hér í samfélaginu. Hún er til viðtals á skrifstofu félagsins á Smiðjuvöllum 8 í Reykjanesbæ (húsnæði Rauða krossins) þriðjudaga og fimmtudaga kl. 12-16. Víkurfréttir áttu viðtal við þau Guðmund Björnsson formann félagsins og Sigrúnu Ólafsdóttur starfsmann.
Frá því í byrjun þessa árs hefur verið unnið að endurskipulagningu á þjónustumiðstöð Krabbameinsfélags Suðurnesja. Stjórn félagsins taldi að þörf væri á breyttu verklagi varðandi starfsemina og nauðsynlegt væri að taka upp nýja starfshætti sem tækju mið af framtíðarsýn okkar um rekstur á slíkri þjónustu. Á meðan breytingarferlið stóð yfir skipti stjórn félagsins með sér verkum svo unnt væri að sinna þeim verkefnum sem í gangi voru og bregðast við því sem upp kynni að koma. Öll stjórnarstörf í félaginu eru unnin í sjálfboðavinnu. Nú er þessu breytingarferli lokið og frá 1. september hefur þjónustumiðstöðin starfað með breyttum og nýjum áherslum.
„Við erum líknar- og góðgerðarfélag og svo erum við stuðningsfélag fyrir krabbameinssjúka. Þegar fólk greinist með krabbamein þá getur það leitað til okkar,“ segir Guðmundur Björnsson, formaður félagsins, en tilgangur félagsins er að styðja við baráttuna gegn krabbameini. Markmið þess er að aðstoða og styrkja fólk sem greinst hefur með krabbamein og létta undir með viðkomandi eftir því sem aðstæður leyfa en þjónustusvæði félagsins nær yfir öll Suðurnesin.
„Nýjar áherslur hafa verið teknar upp varðandi samskipti og samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands og munum við í framtíðinni starfa í nánari tengslum við Ráðgjafaþjónustu KÍ og nýta okkur þjónustu þeirra og aðstoð eftir því sem við á. Stefnt er að því að efla starfsemi félagsins svo sem að stofna stuðningshóp fyrir fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra, bjóða upp á fræðslufundi, koma á samveru- og rabbfundum og afla nýrra félagsmanna og styrktaraðila,“ segir Sigrún Ólafsdóttir.
Starfsemi Krabbameinsfélags Suðurnesja byggir á tryggum félagsmönnum sem greiða árgjöld, en það eru einu föstu tekjur félagsins. Samtals eru skráðir félagar nú rúmlega 700. „Við byggjum starfsemina að miklum hluta á söfnunarfé sem félagsmenn afla og einnig með þátttöku í landssöfnunarátaki Krabbameinsfélags Íslands. Starfsemi okkar nýtur velvildar hjá landsmönnum flestum og fyrir það erum við afar þakklát,“ segir Guðmundur.