„Eðlilegt að íbúar verði upplýstir“
Meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar vísaði í fyrradag tillögu fulltrúa Samfylkingar frá um að gerð verði sjálfstæð úttekt á fyrirliggjandi samningsdrögum við Eignarhaldsfélagið Fasteign og fjárhagslegum skuldbindingum. Vísað var til þess að vinnan stendur enn, segir í frétt á mbl.is.
Í bókun fulltrúa Samfylkingar segir að það sé miður að meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar skuli ekki samþykkja tillögu bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar sem vísað var til bæjarráðs af bæjarstjórn þann 26. júní sl. Í henni var lagt til að bæjarráð sameinist um að ráða óháðan sérfræðing, sem ekki hefur starfað fyrir Eignarhaldsfélagið Fasteign né Capacent, og feli honum að gera sjálfstæða úttekt á fyrirliggjandi samningsdrögum og fjárhagslegum skuldbindingum.
Niðurstöðurnar yrðu síðan kynntar fyrir bæjarstjórn áður en til endanlegrar staðfestingar bæjarstjórnar kemur á samningi Reykjanesbæjar við EFF. „Ljóst er að afdrif EFF mun hafa áhrif á fjárhag bæjarins til langrar framtíðar næstu árin og því eðlilegt að íbúar bæjarins verði upplýstir um málið og sé gefið tækifæri á að tjá skoðun sína.“