ECA: Heimahöfn mitt á milli N-Ameríku og Evrópu afar heppileg
Síðustu misserin hefur verið töluvert verið fjallað um ECA í fjölmiðlum hér á landi og áhuga félagsins á að sinna viðskiptum sínum og starfsemi á Íslandi. Sú umfjöllun hefur að miklu leyti verið villandi og byggð á misskilningi eða rangfærslum, segir í gögnum sem Víkurfréttir hafa aðgang að.
Heimahöfn flugreksturs ECA á Íslandi kallar á 150-200 bein störf á næstu tveimur árum. Þá mun skráning þotanna hérlendis mun skapa störf í stjórnsýslunni samkvæmt skýrslu Flugmálastjórnar. ECA er reiðubúið að greiða allan kostnað sem fylgir skráningu þotanna og vinnslu umsóknar félagsins, rétt eins og tíðkast í framkvæmd erlendis.
Fjöldi afleiddra starfa eru líkleg til að skapast, svo sem þjónusta vegna aðfanga, vistarvera starfsmanna o.fl. Ónotað svæði á Suðurnesjum, fasteignir og fleira, kemst í fulla nýtingu með tilheyrandi leigu- eða sölutekjum.
Reiknað er með að húsnæðisþörf félagsins í fyrsta áfanga sé ríflega 12.000 fermetrar og er fyrirhugað að byggja nýtt flugskýli um leið og lóð fæst til verksins. Slíkar framkvæmdir fela í sér fjárfestingu upp á 3 til 3,5 milljarða króna.
Rekstur félagsins verður á Íslandi í gegnum íslenskt félag, með tilheyrandi tekjum fyrir Ísland í gegnum skatta og gjöld. Áætlanir ECA gera ráð fyrir að greiddar verði á bilinu 600 til 900 milljónir króna í opinber gjöld og kostnað fyrsta starfsárið.
Þotur ECA munu geta nýst Íslendingum við aðstoð við ýmis eftirlits- eða björgunarstörf ef íslenskum stjórnvöldum svo hugnast. Þoturnar geta borið björgunarbúnað, fullkomnar leitarmyndarvélar og ratsjár, auk hæfra flugmanna til að bregðast skjótt við ef svo ber undir. ECA hefur lýst því yfir að félagið sé tilbúið til samstarfs af þessu tagi, segir í þeim gögnum sem Víkurfréttir hafa.
Hvað er ECA?
ECA er fyrst og síðast þjónustufyrirtæki sem mun þjónusta ýmsar aðildarþjóðir NATO. E.C.A. Program Ltd. er formlegt nafn fyrirtækisins, sem stendur fyrir European Combined Aircraft Program. Félagið er skráð í Lúxembourg og uppfyllir allar reglur og staðla Evrópusambandsins. Dótturfélag þess, ECA Program Iceland ehf., hefur þegar verið stofnað utan um fyrirhugaðan rekstur félagsins hérlendis. Ráðning starfsfólks er jafnframt hafin og félagið mun innan skamms opna skrifstofur sínar hérlendis.
Einn mesti misskilningurinn sem hefur verið ríkjandi í umræðunni er sá að ECA reki einhvers konar málaliða- eða hernaðarstarfsemi. Svo er alls ekki. Félagið stundar ekki stríðsrekstur og stuðlar ekki að stríðsrekstri með þjónustu sinni. Vissulega mun félagið selja þjónustu sína til helstu herja NATO ríkjanna en þjónustan sem ECA mun selja verður aðstoð við varnaræfingar flugherja ríkjanna. Félagið hefur ekki og mun ekki á neinum tímapunkti hafa undir höndum vopn eða annan búnað til eyðileggingar og því er útilokað að félagið muni stuðla að því að einu einasta skoti verði hleypt af, hvort sem er við þá viðhaldsstarfsemi sem er fyrirhuguð hérlendis, eða við veitingu þjónustu félagsins erlendis.
Nánar um þjónustu ECA
Þjónusta ECA snýst fyrst og fremst um að selja flugherjum aðstoð við varnaræfingar sínar. Félagið hefur þegar tryggt sér eignarhald á fjölda þota og fær þær fyrstu afhentar innan skamms. Þessar þotur og annan nauðsynlegan búnað hefur félagið keypt frá Rússlandi, Hvíta-Rússlandi, Evrópusambandinu o.fl. Þoturnar voru allar upphaflega framleiddar sem herþotur en félagið fær þær að sjálfsögðu afhentar án alls vopnabúnaðar. Þoturnar verða því skráðar sem borgaralegar vélar til eignar og notkunar fyrir ECA. Að sjálfsögðu fylgir það kaupunum að ECA er óheimilt að framselja þoturnar að vild, til að tryggt sé að þær falli ekki í rangar hendur, og þær skulu aðeins notaðar í friðsamlegum tilgangi.
ECA mun ráða og þjálfa flugmenn til að stjórna þessum þotum og leigja þær síðan til varnaræfinga, þar sem þoturnar verða notaðar sem gagnaðili (e. opposing force) við æfingar og þjálfun herja erlendra ríkja. Eðlilega þá fara varnaræfingar þannig fram að vélarnar búnar flóknum rafeindabúnaði, sem líkja má við "lasertag" eða aðra sambærilega eftirhermun. Flugbúnaður ECA mun því vissulega bera merki þess að vera herbúnaður, en það er á sama tíma ljóst að ECA þotur munu ekki bera nein vopn og ekki hafa neina getu til þess. Þoturnar munu hins vegar geta borið ýmislegt annað en vopn, t.d. björgunarbáta, fullkomnustu leitarmyndavélar og ratsjár, svo eitthvað sé nefnt. ECA hefur lýst yfir vilja sínum til slíks samstarfs, sem gæti m.a. leitt til bætts öryggis sjófarenda í kringum Ísland.
Öll þessi þjónusta mun fara fram utan Íslands, hérlendis munu ekki verða haldnar neinar heræfingar eða þjálfun fyrir erlend ríki, enda engin heimild til slíks og ekki að því stefnt af hálfu ECA.
Starfsemin á Íslandi
ECA hyggst eiga fyrir þoturnar heimahöfn á Íslandi og eðlilega er hugmyndin sú að heimahöfnin verði staðsett á flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Hér er því fyrirhugað að geyma þotur og annan búnað á milli verkefna erlendis, með nauðsynlegu viðhaldi og þjónustu. Þegar starfsemin verður komin á það stig sem að er stefnt má áætla að milli 30 og 40 þotur verði hér á landi. Þann flota þarf að þjónusta. Félagið áætlar að við heimahöfnina muni fyrstu árin vera nauðsynlegt að ráða í 150-200 störf, aðallega við tæknistörf og flugvirkjun, en einnig við almenn störf sem og við skrifstofuhald. Þessi staða gæti gefið mikla möguleika í menntun flugvirkja.
Hér munu aðalskrifstofur félagsins verða reistar og starfseminni um allan heim stýrt héðan. Erfitt er að meta fjölda óbeinna og afleiddra starfa en vart verður annað séð en að slík starfstækifæri muni skapast.
Þessi starfsemi getur hins vegar ekki hafist af fullum krafti nema þotur ECA fáist skráðar hérlendis ásamt því að fá veitingu tiltekinna flugleyfa, en umsókn þess efnis hefur legið fyrir hjá Flugmálastjórn Íslands um nokkurn tíma. Ekki fæst séð að gera þurfi lagabreytingar svo hægt sé að skrá þoturnar hérlendis. Ákvörðun um skráningu er því stjórnsýslunnar. Sú ákvörðun að heimila skráningu hefur ekki verið tekin. Fyrrverandi samgönguráðherra var hlynntur því að þessi skráning gæti átt sér stað, eftir að hafa kynnt sér málið vandlega, og óskaði eftir því við Flugmálastjórn að slík vinna gæti hafist.
Af hverju Ísland?
Margar ástæður liggja að baki óskum ECA um að reka þjónustu sína frá Íslandi og fæstar eru þær jafn dularfullar og ýmsir hafa viljað vera láta. Rétt er það, að ECA hafði áður skoðað aðstöðu í Kanada, sem bauð einnig upp á marga kosti. Sú hugmynd náði hins vegar aldrei langt þar sem að í Kanada er rekið félag, Top Aces, sem selur sömu þjónustu og ECA. Félagið hefur gert samninga við kanadíska ríkið um þessa þjónustu og lítill vilji var til þess að bæta við samkeppnisaðila innanlands. Ísland kom næst til skoðunar, enda hefur það jafnvel enn frekari kosti en Kanada hvað starfsemi ECA varðar.
Hnattræn lega Íslands er auðvitað augljós kostur fyrir ECA. Að hafa heimahöfnina staðsetta mitt á milli N-Ameríku og Evrópu er afar heppilegt þar sem félagið mun selja ríkjum beggja vegna atlantsála þjónustu sína.
Þá er ECA mjög mikilvægt að Ísland skuli vera aðili að NATO en jafnframt herlaust ríki. Slíkt kann að hljóma eins og þversögn, sérstaklega í ljósi innlendrar umfjöllunar um ECA. Þetta er hins vegar eðlilegt, því ECA mun selja herjum NATO ríkjanna aðstoð við varnaræfingar, sem er auðvitað nokkuð viðkvæmt svið, og því má ætla að sjálfstæðum ríkjum þyki eftirsóknarvert að slík þjónusta sé veitt af félagi sem er ekki hluti af eða undir of miklum þrýstingi frá her eða ríkisstjórn einhvers annars ríkis. Vera ECA á Íslandi skiptir félagið miklu máli og veitir félaginu sína sönnu ásýnd, þ.e. að það sé hlutlaust þjónustufyrirtæki sem starfi í landi sem er meðal stofnaðila NATO.
Ýmis fleiri atriði má nefna sem gera Ísland heppilegan stað fyrir ECA. Staðsetningin og aðstaðan á Íslandi er tilvalin fyrir ECA, hér er t.d. að finna næstum ónotaðan alþjóðaflugvöll og nægt svæði til notkunar og uppbyggingar. Slík aðstaða er vandfundin annars staðar í Evrópu. Þá er skatthlutfall á Íslandi samkeppnishæft við meginland Evrópu sem og launakjör sérfræðinga.
Undirbúningsvinna ECA fram að þessu
Mikil undirbúningsvinna hefur staðið yfir af hálfu ECA undanfarin misseri til að geta starfrækt heimahöfn sína á flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Snýst sú vinna fyrst og fremst um að fá þotur félagsins skráðar hérlendis.
Eins einkennilega og það hljómar, segir í gögnum ECA, þá er flestu öðru undirbúningsstarfi ECA lokið, kaup og fjármögnun þota sem eru milljarða króna virði, öflun allra tilskilinna útflutningsleyfa og öflun vilja-, trausts- og samstarfsyfirlýsinga frá NATO og NATO-ríkjum. Það sem hindrar hins vegar framgang verkefnisins á þessu stigi eru tafir íslensku stjórnsýslunnar að taka ákvörðun um að heimila skráningu þotanna á Íslandi. ECA hefur sýnt því skilning að íslensk stjórnsýsla hefur ekki áður skráð sambærilegar þotur en flugrekstur hérlendis sem að mestu á sér stað erlendis er ekki nýjung fyrir íslenskan markað. Eðlilegt væri að vinna skráninguna í samstarfi og með ráðgjöf erlendra stjórnvalda, þar sem fordæmin er víða að finna, enda er þjónusta ECA hvergi nærri sú eina sinnar tegundar í heiminum. Orðspor Íslands í flugheiminum mun jafnframt styrkjast ef rétt er að staðið.
Á þetta hefur ECA bent, sem og á það að almennt tíðkast erlendis að sá aðili sem leggur inn umsókn af þessu tagi fyrir viðkomandi flugmálastjórnvöld þurfi að bera kostnaðinn af vinnslu hennar. ECA hefur margoft lýst því yfir að félagið sé tilbúið að bera hvern þann kostnað sem umsókninni og vinnslu hennar fylgir.
Þess má geta að í febrúar 2010 gaf Flugmálastjórn út ítarlega skýrslu um skráningu þota af þessu tagi, sem var m.a. kostuð af ECA, þar sem að niðurstaðan var sú að skráningin væri möguleg að gerðum tilteknum lagfæringum á skráningarkerfi stofnunarinnar, segir í þeim gögnum sem Víkurfréttir hafa undir höndum.