Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

easyJet hefur flug frá Íslandi til Stansted
Flugstjórinn Davíð Ásgeirsson (4. f.v.) ásamt áhöfn og starfsfólki easyJet og Stansted-flugvallar.
Fimmtudagur 5. nóvember 2015 kl. 06:00

easyJet hefur flug frá Íslandi til Stansted

easyJet er nú þriðja umfangsmesta flugfélagið á Íslandi, með yfir 100 brottfarir á mánuði

easyJet, umsvifamesta flugfélag í Bretlandi og umsvifamesta erlenda flugfélagið hér á landi, hóf í gær beint áætlunarflug á milli Íslands og Stansted-flugvallar í London. Flugstjórinn um borð var Íslendingurinn Davíð Ásgeirsson.

Stansted er níunda flugleið easyJet frá Íslandi en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til Manchester, Edinborgar, Bristol, Basel, Belfast, Genf, og flugvallanna Luton og Gatwick í London. Þetta er því þriðji flugvöllurinn sem í boði er í flugi félagsins á milli Keflavíkur og London.

Flogið verður á milli Stansted og Keflavíkur tvisvar í viku en búist er við að flugleiðin muni njóta mikilla vinsælda. Alls áætlar easyJet að ferja um 12 þúsund farþega á milli staðanna tveggja árlega en á síðasta ári flaug flugfélagið með um 350 þúsund farþega til og frá Íslandi. Það eru fleiri en sem nemur heildaríbúafjölda Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Davíð Ásgeirsson, flugstjóri hjá easyJet: „Vélin var full og það var góð stemning um borð. Það er í raun og veru ótrúlegt að uppselt sé í jómfrúarferð í nóvember, nánast um hávetur, frá Stansted til Íslands. Ég þekki það því ég flýg út um alla Evrópu fyrir easyJet. Það var mikill heiður fyrir mig að fá að stýra þessu jómfrúarflugi og afskaplega spennandi að taka þátt í þessum öra vexti easyJet á Íslandi. easyJet er orðinn stór hluti af ferðaþjónustu á Íslandi og hefur flogið með 850 þúsund farþega frá því það hóf flug til Íslands í mars 2012. Það er ævintýralegur vöxtur. Ég sem Íslendingur er stoltur af því að vinna hjá svona stóru fyrirtæki sem tekur þátt í að efla íslenskt efnahagslíf í gegnum ferðaþjónustuna.“

Dimitrios Schoinas, forstöðumaður London-flugleiða hjá easyJet: „Við erum afskaplega ánægð með að bæta við þessari nýju flugleið frá London Stansted til Reykjavíkur. Það er vaxandi eftirspurn eftir lengri og styttri ferðum til Íslands og við gerum það auðvelt að fara á milli þessara tveggja áfangastaða og sköpum þannig aukið virði fyrir bæði íslenska og breska ferðamenn. Með þessari nýju flugleið á milli London Stansted og Keflavíkur leggjum við áherslu á það markmið okkar að gera ferðalög auðveld og ódýr, bæði fyrir þá sem eru í fríi og þá sem eru í viðskiptaerindum.”