Easy Jet flýgur beint flug til Edinborgar tvisvar í viku
Breska flugfélagið hefur aukið umsvif sín hérlendis jafnt og þétt og flýgur 8 sinnum í viku til þriggja áfangastaða frá Keflavík.
Í kvöld verður flogin jómfrúarferð á nýrri flugleið frá Íslandi þegar hinn 29 ára gamli flugstjóri, Davíð Ásgeirsson, flýgur Airbus-þotu easyJet flugfélagsins í fyrsta sinn í beinu áætlunarflugi á milli Íslands og Edinborgar í Skotlandi.
EasyJet, sem er eitt stærsta flugfélag Evrópu, mun fljúga tvisvar sinnum í viku til Edinborgar frá Íslandi, á fimmtudögum og mánudögum. Breska flugfélag hefur aukið umsvif sín hérlendis jafnt og þétt. Þetta er þriðji áfangastaðurinn sem flugfélagið sinnir í beinu flugi frá Íslandi. Hinir eru Lundúnir og Manchester-borg, en alls flýgur easyJet nú átta sinnum í viku á milli Íslands og Bretlandseyja. Flug félagsins til Lundúna er starfrækt allt árið um kring. EasyJet verður eina félagið sem býður áætlunarflug á þessari flugleið.
Edinborg er annar vinsælasti áfangastaðurinn á Bretlandseyjum, á eftir Lundúnum, en þrettán milljónir farþega koma til borgarinnar ár hvert. Fjölmargar tengingar eru jafnframt til áfangastaða í Evrópu í gegnum Edinborgarflugvöll. Þess má geta að íslenski ferðavefurinn Túristi.is hefur í tilefni þess að Edinborg var valinn áfangastaður ársins í Evrópu í fyrra haft milligöngu um gistingu fyrir íslenska ferðamenn í Edinborg með 10% afslætti.
EasyJet er lággjaldaflugfélag og selur farmiða sína eingöngu í gegnum netið. Fyrirtækið hefur yfir 200 þotur í flugvélaflota sínum og telst hann ungur í alþjóðlegum samanburði, en meðalaldur farþegaþotu í þjónustu easyJet er fjögur ár, segir í tilkynningu frá félaginu.
Áætlað er að fyrsta vélin til Edinborgar fari í loftið um kl. 21:05 í kvöld.
Einar flugstjóri með íslenska fánann að húni.