Eastwood ræddi við Víkurfréttir
Óskarsverðlaunahafinn, stórleikarinn og nú leikstjórinn Clint Eastwood kom til landsins í gærkveldi en hann lenti á Keflavíkurflugvelli á einkaþotu ásamt leikurum úr kvikmyndinni Flags of Our Fathers.
„Ég er aðeins búinn að vera hér á Íslandi í nokkra klukkutíma og allt lítur mjög vel út,“ sagði Clint Eastwood við Víkurfréttir þegar hann mætti á Hótel Nordica seint í gærkveldi. Hann hafði þá farið strax eftir lendingu á tökustað kvikmyndarinnar í Krísuvík en hann sagði í samtali við Víkurfréttir að honum litist vel á aðstæður.
Kappinn mun dvelja hér á landi í tæpan mánuð ásamt Hollywood-leikurum sem eru allflestir komnir hingað til lands. Með honum í einkaþotunni voru tveir af aðalleikurunum í kvikmyndinni og fjölskyldur þeirra. Það voru þeir Jesse Bradford, sem lék meðal annars í Swimfan og Bring it on, og Adam Beach, sem lék með Nicolas Cage í Windtalkers.
Þegar Víkurfréttir ræddu við Adam Beach sagðist hann hlakka til að skoða sig um hér en aðallega beið hann eftir því að komast út á golfvöll en töluvert af golfsettum fylgdu köppunum úr einkaþotunni. „Ég get ekki beðið eftir því að komast í golf en ég tók nú samt ekki settið með mér en það á eftir að reddast,“ sagði Adam við Víkurfréttir.
Þeir félagarnir, Adam og Jesse, stoppuðu þó stutt á Hótel Nordica en þeim var úthlutað bílaleigubílum sem þeir nýttu strax á fyrsta degi til að skoða borgina að næturlagi. Fyrir blaðamann Víkurfrétta var það eins og að vera í kvikmyndaveri í Hollywood fyrir utan Hótel Nordica þegar hver stjarnan á fætur öðrum gáfu sig á tal við blaðamanninn og lýstu ánægju sinni yfir stuttri dvöl þeirra hér á landi.
Ekki eru allir aðalleikararnir mættir á klakann en þeir Neil McDonough, sem áhorfendur Stöðvar 2 ættu að þekkja í þáttunum Medical Investigation, Ryan Phillippe, sem er giftur Reese Witherspoon og þekktur fyrir leik sinn í kvikmyndinni Cruel Intensions, og Paul Walker, sem lék í kvikmyndinni Fast and the furious, eru væntanlegir til landsins á næstu dögum en tökur á kvikmyndinni eiga að hefjast á laugardaginn.
Myndirnar: Clint Eastwood á spjalli við blaðamann Víkurfrétta fyrir utan Hótel Nordica / Adam Beach og Jesse Bradford á góðri stundu á Hótel Nordica / VF-mynd: Atli Már