Eastwood heiðraður á Ljósanótt

Ekki þarf að fjölyrða um feril Eastwoods, enda um að ræða einn ástsælasta leikara og leikstjóra allra tíma.
Hann vakti fyrst athygli sem þögli harðjaxlinn í spaghettivestrum Sergios Leone en eftir það hefur hann gert fleiri persónur ódauðlegar þar sem Dirty Harry stendur uppúr.
Eastwood lét sér ekki nægja að vera framan við myndavélina heldur settist í leikstjórastólinn árið 1971 þegar hann gerði myndina Play Misty for me.
Í kjölfarið hefur hann gert hverja myndina á fætur annarri þar sem hann hefur oftar en ekki verið í aðalhlutverki.

Undarfarinn áratug hefur frægðarsól hans haldið áfram að rísa með myndum eins og „Bridges of Madison County” og „Midnight in the Garden of Good and Evil”. Hann festi sig loks endanlega í sessi sem einn áhrifamesti og dáðasti leikstjóri allra tíma með meistarastykkjunum „Mystic River” frá árinu 2003 og loks „Million Dollar Baby”, sem tryggði þessum aldna meistara önnur Óskarsverðlaun fyrir bestu leikstjórn.
Í dag er hann á toppi frægðar sinnar og hefur ráðist í að festa stórmyndina Flags of Our Fathers á filmu í samstarfi við sjálfan Steven Spielberg. Þess má geta að hið virta kvikmyndatímarit Empire setti Eastwood í 11. sæti yfir bestu leikstjóra kvikmyndasögunnar.
Það er gott að fá góða gesti í bæinn og þeir gerast ekki frægari en Clint.
Tveir af hugmyndasmiðum Stjörnusporsins í Reykjanesbæ, þeir Steinþór Jónsson hótelstjóri og Hilmar Bragi Bárðarson, blaðamaður, fóru í Stóru Sandvík á Reykjanesi í dag með helluna góðu sem sett verður í Hafnargötuna og afhjúpuð á morgun. Hugmyndin var að sýna Clint Eastwood sjálfum helluna, en hann hafði aðeins séð teikningu af gripnum og samþykkt. Clint hefur lýst því að hann sé hrærður yfir þeirri viðurkenningu sem íbúar Reykjanesbæjar sýna honum og lýsti sig samþykkan því að koparhella yrði steypt með nafni hans, þar sem þess væri minnst að kvikmyndin Flags of our Fathers hafi verið kvikmynduð í landi Reykjanesbæjar sumarið 2005. Clint var upptekinn við tökur á lokaatriði myndarinnar þegar þá Hilmar og Steinþór bar að og fékk sig ekki lausan frá kvikmyndatökum. Þá hefur ekki verið endanlega skorið úr um það hvort Clint mæti á tröppurnar við Sambíóin í Keflavík á morgun, vegna anna við tökur á myndinni. Búið er að útvega þyrlu til að flytja Clint Eastwood til Keflavíkur, sjái hann sér fært að mæta á svæðið.

Tæknibrellumeistarinn Steven Riley með stjörnusporið hans Clint Eastwood, ásamt þeim Steinþóri Jónssyni og Domenic Ruiz, sem er mágur Clint Eastwood og starfsmaður við tæknibrellur í kvikmyndinni Flags of our Fathers.