Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Eastwood að vígbúast - stríðstól komin til Reykjanesbæjar
Þriðjudagur 19. júlí 2005 kl. 20:02

Eastwood að vígbúast - stríðstól komin til Reykjanesbæjar

Stríðstól sem notuð verða í stórmyndinni Flags of our Fathers, sem leikstýrt er af Clint Eastwood, og tekin verður upp á Reykjanesi, eru farin að streyma til Reykjanesbæjar. Flutningabílar hafa síðdegis komið með forngripi frá síðari heimsstyrjöldinni og hefur þeim verið raðað upp við Hollywood-skemmuna, sem er nýjasta nafnið á Ramma-húsinu svokallaða á Fitjum.
Gamlir hertrukkar, jeppar og svokallaðir DUKW bátar/bílar eru að koma á svæðið hver á eftir öðrum. Meðfylgjandi myndir sýna meðal annars þetta fjölnotatæki, DUKW, úr síðari heimsstyrjöldinni sem var jafnvígt á sjó og landi og hefur hér á landi verið kallað kókódíllinn.
Tækjabúnaður þessi er af söfnum og úr einkaeigu einstaklinga og stofnana víða um Bandaríkin. Hefur því verið lýst í bandarískum fjölmiðlum hvernig það hefur reynst vera himnasending að Warner Brothers hafi viljað leigja þennan búnað til kvikmyndarinnar. Eitt dæmi er um að stakt stríðstól frá seinni heimsstyrjöldinni hafi verið leigt á 20.000 dollara en rekstrarkostnaður safnsins sem það er á er um 8.000 dollarar á ári. Kostnaður við kvikmyndina Flags of our Fathers er áætlaður um 80 milljónir dollara eða ríflega 5 milljarðar króna. Íslenski hluti myndarinnar er sagður kosta nærri tveimur milljörðum króna.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024