E-listinn hvattur til að standa við stefnuskrá sína
-málið vel undirbúið og þarf ekki að leggja í dóm kjósenda, segir E-listinn-
Fulltrúar H-listans í Vogum óttast breytta ásýnd sveitarfélagsins nái áform Landsnets um lagningu háspennulína í lofti fram að ganga. Í bókun sem H-listinn lagði fram á bæjarstjórnarfundi á föstudaginn er E-listinn hvattur til að standa við stefnuskrá sína fyrir síðustu kosningar og staðfesta að hann sé flokkur íbúalýðræðis með því að fallast á ósk 354 íbúa sveitarfélagsins um íbúakosningu.
„Í afstöðu okkar til loftlína um land sveitarfélagsins höfum við litið til hliðstæðra mannvirkja sem reist hafa verið víða um land, í því ljósi óttumst við ásýnd sveitarfélagsins ef áform Landsnets um loftlínur ná fram að ganga," segir í bókuninni.
Fyrir fundinum lá fundargerð bæjarráðs þar sem lögð voru fram drög að viljayfirlýsingu gagnvart Landsneti. Stuttu áður hafði meirihlutinn dregið samningsumboð Suðurlinda gagnvart Landsneti til baka. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum segist ekki vilja tjá sig um viljayfirlýsinguna fyrr en fjallað hefur verið um hana í bæjarstjórn enda sé hún trúnaðarmál.
Samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum fallast bæjaryfirvöld á það í yfirlýsingunni að raflínurnar verði ofanjarðar, sem er þvert á það sem fram kom á íbúafundi síðastliðið vor. Íbúar bæjarins fá því ekki að kjósa um málið eins og farið var fram á með undirskriftasöfnum þar sem 354 íbúar rituðu nöfn sín.
Í bókun meirihluta E-listans segir að undirbúningur að styrkingu raforkuflutningskerfisins á Reykjanesi hefur staðið yfir í tæplega 2 ár og haldnir hafi verið fjölmargir upplýsandi fundir með hlutaðeigandi aðilum.
„Málið er því að mati meirihlutans vel undirbúið og upplýst og ætti bæjarstjórn að hafa nægilega góðar upplýsingar til að geta tekið ákvörðun án þess að leggja það fyrst í dóm kjósenda. Að mati meirihlutans er þetta mál, eins og önnur mál, á ábyrgð lýðræðislega kjörinnar bæjarstjórnar og mun því bæjarstjórn afgreiða málið," segir ennfremur í bókun meirihlutans.
Haft er eftir Ingu Sigurúnu Atladóttur, oddvita minnihlutans að skelfilegt sé að íbúar fái ekki að kjósa um málið. Sveitarfélög ráði yfir höfuð litlu um skipulagsmál þegar stórir fjárhagslegir hagsmunir séu annarsvegar og þrýstinguinn beri þau ofurliði.