Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

E-listi og D-listi ræða meirihlutasamstarf í Vogum
Fimmtudagur 19. maí 2022 kl. 13:51

E-listi og D-listi ræða meirihlutasamstarf í Vogum

Birgir Örn Ólafsson, oddviti E-listans í Sveitarfélaginu Vogum, segir það vera fyrsta verkefnið eftir kosningar að ræða mögulegan nýjan meirihluta við sjálfstæðismenn í Vogum. E-listinn missti hreinan meirihluta sinn til átta ára í kosningunum á laugardaginn.

Voru vonbrigði á missa meirihlutann?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Jú, vissulega. Það eru alltaf vonbrigði að missa meirihluta. Hafandi verið með hreinan meirihluta í tvö kjörtímabil þá eru þetta viðbrigði.“

Eru þreifingar í gangi?

„Menn eru aðeins búnir að þreifa. Við höfum tekið spjallið og gerðum það fljótlega eftir að niðurstöður lágu fyrir. Við ætlum að hittast og taka ákvörðun um hvort við ætlum í meirihlutaviðræður. Það er næst á dagskrá að við og sjálfstæðismenn taki fyrsta samtalið.“

Birgir segir spennandi tíma framundan í sveitarfélaginu og fólk sé að kalla eftir góðri samvinnu. „Það hefur verið mjög góð samvinna milli listanna síðasta kjörtímabil og við eigum ekki von á öðru en það haldi áfram. Við erum í spennandi umhverfi hér í Sveitarfélaginu Vogum eins og annarsstaðar á Suðurnesjum. Það er mikil uppbygging og jákvætt framundan,“ segir Birgir Örn Ólafsson, oddviti E-listans í Vogum.

Göngum sátt frá kosningunum

„Ég er bara mjög sáttur við úrslit kosninganna. Okkar ósk var að það yrði ekki hreinn meirihluti hjá neinu framboðanna og það gekk eftir,“ segir Kristinn Björgvinsson, oddviti L-listans, Lista fólksins, í Sveitarfélaginu Vogum.

L-listinn hélt sínum manni í bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga og jók fylgi sitt um rúmlega „Það vantaði ekki nema um fimm atkvæði að við næðum öðrum manni inn, sem er að sjálfsögðu örlítil vonbrigði, en við göngum sátt frá kosningunum og ánægð með það traust sem við hlutum og ætlum að gera okkar besta hvort heldur ef það er í meirihluta eða minnihluta,“ segir Kristinn.

Kristinn segist engar fréttir hafa af meirihlutaviðræðum þegar Víkurfréttir heyrðu í honum um hádegisbil á mánudag. „ÉG veit ekki hvort E- og D-listi séu að ræða saman og ætli að mynda sex manna meirihluta. Það hefur allavega enginn haft samband við okkur ennþá. Við erum bara spök og sjáum hvað tíminn leiðir í ljós,“ segir hann að endingu. L-listinn hafi ekki ennþá boðið D- eða E-listanum upp í pólitískan dans.

Óskað var eftir viðbrögðum frá D-listanum við úrslitum kosninganna. Þau bárust ekki áður en Víkurfréttir fóru í prentun í vikunni.