E.C.A. Program: Fjölmörg störf til framtíðar
Peter Campbell, svæðisframkvæmdastjóri E.C.A. Program á Ásbrú, segir í samtali við Víkurfréttir að fyrirtækið geri í dag ráð fyrir að hefja starfsemi í stóra flugskýlinu á Keflavíkurflugvelli í júlí á næsta ári. Þegar gengið hafi verið frá samningum við íslensk stjórnvöld og íslensk flugmálayfirvöld verði ráðist í víðtækar breytingar á flugskýlinu þar sem starfsemin verður til húsa.
Þegar fyrirtækið hefji starfsemi hér þurfi það strax á starfskröftum um 50 flugvirkja að halda og strax sé gert ráð fyrir miklum vexti í starfseminni næstu 18 til 24 mánuðina þar á eftir með tilheyrandi fjölgun starfsmanna í viðhaldsstöð fyrirtækisins og annari starfsemi þess á svæðinu, en auk flugvirkjunar séu einnig hefðbundin skrifstofustörf og önnur flugþjónusta á jörðu niðri.
Peter á von á því að starfsemi E.C.A. Program á samfélagið hér muni hafa jákvæð efnahagsleg áhrif, enda fjölmörg störf sem fylga starfseminni til framtíðar, auk starfa fyrir iðnaðarmenn þegar ráðist verður í breytingar á flugskýlinu sem hann gerir fastlega ráð fyrir að hefjist fyrir áramót.