Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

E.C.A. fyrirhugar að byggja nýtt flugskýli á Keflavíkurflugvelli
Fimmtudagur 18. mars 2010 kl. 19:54

E.C.A. fyrirhugar að byggja nýtt flugskýli á Keflavíkurflugvelli

E.C.A. Program Iceland ehf. áformar að byggja nýtt flugskýli á Keflavíkurflugvelli, gangi áætlanir eftir um að fyrirtækið komi sér upp heimastöð á Keflavíkurflugvelli fyrir flugflota sinn. Bygging flugskýlis er mikil fjárfesting og í tilkynningu sem Víkurfréttum barst nú áðan er nefnt að flugskýlið komi til með að kosta þrjá til þrjá og hálfan milljarð króna.


Í tilkynningunni kemur fram að mikil undirbúningsvinna hefur verið í gangi til að kanna möguleika á að E.C.A. Program Ltd (European Combined Aircraft) geti starfrækt heimastöð á flugvallarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Segir að ef verkefnið nær fram að ganga er um að ræða mikla lyftistöng fyrir svæðið og landið í heild og að fyrirtækið skapi um 150 til 200 tæknistörf sem yrðu í viðhaldsstöð fyrirtækisins.

Hér stendur til að þjónusta allt að 20 þotur af gerðinni Sukhoi Su-30Mk og Yakovlev Yak-130.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


E.C.A. Program Iceland ehf. hefur verið stofnað á Íslandi og það vísar á bug öllum staðhæfingum um hernaðarbrölt fyrirtækisins og segir þær úr lausu lofti gripnar. „E.C.A .er ekki hernaðarfyrirtæki í beinum skilningi þess orðs. E.C.A. er þjónustufyrirtæki og verktaki sem þjónustar ýmsar aðildarþjóðir NATO,“ segir í tilkynningunni sem RI Ráðgjöf sendi fyrir hönd Melville P. ten Cate forstjóra E.C.A. Program Ltd.


E.C.A. mun byggja starfsemi sína hér á landi á heimastöð fyrir óvopnaðar flugvélar sem munu þjónusta hinar ýmsu aðildarþjóðir NATO. Útseld þjónusta E.C.A. mun öll fara fram í öðrum löndum en öll viðhalds- og tækniþjónusta er fyrirhuguð á Íslandi.


„Ef verkefnið gengur eftir er um að ræða friðsamlega heimastöð E.C.A. í landi sem hefur uppá að bjóða vel menntað starfsfólk, góða aðstöðu og bestu mögulegu staðsetninguna,“ segir að lokum í tilkynningunni.

Fréttatilkynning E.C.A. er hér.