E. coli bakteríur í vatnsbóli í Garði
Í reglubundnu eftirliti Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja með gæðum neysluvatns þann 9. nóvember sl. reyndist sýni sem tekið var af neysluvatni í vatnsbóli sem er við Heiðarbraut í Garði mengað af E. coli bakteríum. Niðurstöður þessa efnis lágu fyrir nú í morgun og var vatnsbólinu lokað þegar í stað. Samhliða þessu var dreifikerfið hreinsað.
Embættið mun ráðast í ítarlegar rannsóknir á neysluvatninu í dag og munu rannsóknarniðurstöður liggja fyrir þegar líður á vikuna, segir í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja.
HS Veitur sem eiga og reka vatnsbólið við Heiðarbraut tóku fyrir um 2 árum ákvörðun um að leggja af umrætt vatnsból. Endanleg lokun vatnsbólsins hefur hins vegar tafist þar sem ekki hefur verið hægt að ljúka nauðsynlegum úrbótum á dreifikerfi.
Á meðfylgjandi mynd sést dæluhúsið á vatnsbólinu við Heiðarbraut merkt með rauðum hring.