Dýrin í Hálsaskógi mæta í netleikhús LK og VF
Leikfélag Keflavíkur og Víkurfréttir hafa tekið höndum saman í að stytta Suðurnesjamönnum og öðrum stundir á þessum fordæmalausu tímum heimsfaraldurs COVID-19. Í sameiningu setjum við upp leikhús á netinu og sýnum valdar sýningar frá Leikfélagi Keflavíkur.
Fyrsta sýningin verður á morgun, sunnudaginn 22. mars, þegar Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjorn Egner í leikstjórn Gunnars Helgasonar verða sýnd. Sýningin hefst kl. 12:00 á hádegi og verður streymt á Facebook-síðu Víkurfrétta.
Næsta sýning sem send verður út í NETLEIKHÚSINU verður svo föstudagskvöldið 27. mars þegar Mystery Boy verður sýnt. Verkið var verðlaunað sem áhugaleiksýning ársins hjá Þjóðleikhúsinu. Höfundur er Smári Guðmundsson en uppsetningin var í leikstjórn Jóels Sæmundssonar.
Sunnudagskvöldið 29. mars verður svo Killer Joe. Höfundur er Tracy Letts, þýðandi Stefán Baldursson en leikstjóri var Davíð Guðbrandsson.