Dýrasta íbúð á Suðurnesjum?
Fasteignaverð hækkar á Suðurnesjum. Framboð minna en eftirspurn hefur áhrif á verðið.
Fasteignaverð hefur hækkað verulega á Suðurnesjum á undanförnum mánuðum og mikil sala. Þakíbúð í Keflavík er nú auglýst á 95 milljónir kr. en það er hæsta verð sem vitað er um að hafi verið auglýst á eign til einstaklinga.
Um er að ræða sex herbergja þakíbúð við Víkurbraut, nánar tiltekið í sex hæða fjölbýlishúsi við höfnina í Keflavík. Íbúðin er glæsileg á tveimur hæðum. Í henni eru fjögur svefnherbergi og þrjú baðherbergi og alls um 301 fermetri. Þá eru 100 fermetra yfirbyggðar svalir. Þar er hægt að njóta útsýnisins út á sjóinn eða yfir Reykjanesbæ.
Guðlaugur H. Guðlaugsson, fasteignasali hjá Stuðlabergi sem er með eignina í einkasölu segir að fasteignaverð hafi hækkað mikið að undanförnu og á meðan eftirspurn sé meiri en framboð megi gera ráð fyrir slíkri þróun áfram. Íbúðir hafa verið að seljast á 250 til 270 þús. kr. fermetrann en Guðlaugur segir að nýlega hafi íbúð farið á 300 þús. kr. fermetrann. Þegar markaðurinn verði kominn í það horf megi eiga von á því að byggingaaðilar fari í gang af meiri krafti með byggingar íbúða. Þá muni framboð aukast.
Útsýnið er glæsilegt frá svölunum.