Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Dýrara að reka Gæsluna á Miðnesheiði en í Reykjavík
Miðvikudagur 27. apríl 2011 kl. 09:25

Dýrara að reka Gæsluna á Miðnesheiði en í Reykjavík

Hugsanlegur flutningur Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja gæti haft umtalsverðan kostnað í för með sér vegna flutningsins sjálfs og aukins rekstrarkostnaðar til lengri tíma.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, sem vitnað er til á visir.is, er þetta meðal þess sem kemur fram í hagkvæmnisathugun sem var unnin fyrir innanríkisráðuneytið og verður kynnt á fundi ríkisstjórnar í dag. Þessi niðurstaða gæti sett flutninginn í uppnám.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Athugunin hefur staðið yfir allt frá síðasta hausti, en þetta var meðal þeirra verkefna sem kynnt voru á fundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Reykjanesbæ í nóvember. Skýrslan átti að liggja fyrir snemma í febrúar og hefur meðal annars verið þrýst á um niðurstöður í ræðustól á þingi.

Hagkvæmnisathugunin felur ekki í sér endanlega ákvörðun og í henni er ekki lagt mat á áhrif hugsanlegs flutnings á atvinnulíf á Suðurnesjum. Þar er einungis metinn hugsanlegur kostnaður og áhrif á starf Gæslunnar. Framhaldið er í höndum ríkisstjórnarinnar, en heimildir blaðsins herma að skiptar skoðanir séu um málið þar, sem og á þingi.

Mikill pólitískur þrýstingur er á flutning, þar sem allir þingmenn Suðurkjördæmis og sveitarstjórnarfólk á svæðinu hafa skorað á stjórnvöld að ganga í málið, og í febrúar var lögð fram þingsályktunartillaga um að ráðherra hæfi undirbúning að flutningi.

Tvær þingsályktunartillögur um gerð hagkvæmnismats vegna flutnings voru lagðar fram árið 2004 og 1992, en komust hvorug út úr allsherjarnefnd.

Talsmenn flutnings vísa meðal annars til þess að þeir telji alla nauðsynlega aðstöðu fyrir Landhelgisgæsluna vera fyrir hendi í Reykjanesbæ. Þar sé stórt flugskýli og annað húsnæði á Ásbrú, auk þess sem hafnaraðstaða sé til reiðu og styttra sé út á haf en frá núverandi aðstöðu í Reykjavíkurhöfn.
Hins vegar er einnig sterk krafa um að ávinningur verði af aðgerðunum, ef þær verði að veruleika. Það má ráða af ræðum á þingi þar sem þingmenn hafa einnig lagt áherslu á að staðsetning Gæslunnar sé ekki stærsta vandamál stofnunarinnar.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra tók í svipaðan streng í svari sínu við fyrirspurn á Alþingi í janúar síðastliðnum þar sem hann sagði: „Af minni hálfu er meginforsenda þess að gera tillögu um þennan flutning starfsemi Landhelgisgæslunnar að óyggjandi sé að ekki sé óhagkvæmara að reka stofnunina þar en hér í Reykjavík.“- þj