Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sunnudagur 25. nóvember 2001 kl. 00:09

Dýr árekstur í skíðabrekku

Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp dóm í máli tveggja Suðurnesjamanna sem lentu í árekstri í skíðabrekku í Kitzbüel í Austurríki 5. febrúar. Þar rákust saman tveir einstaklingar með þeim afleiðingum að annar þeirra hlaut 25% varanlega örorku.
Í skjölum Héraðsdóms Reykjavíkur um málsatvik að málsaðilar voru saman í skíðaferð ásamt fleira fólki við skíðabæinn Kitzbühel í Austurríki. Mánudaginn 5. febrúar 1996 rákust stefnandi máls þessa, (H), og stefndi, (S), saman í skíðabrekku með þeim afleiðingum að stefnandi slasaðist talsvert, hlaut hún slæmt brot á hægri sköflungi og meiðsli á öxl, leiddi þetta til þess að hún hefur verið metin til 25% varanlegrar örorku og var metinn 25% varanlegur miski.
Slysið varð í góðu veðri við bestu aðstæður, brekkan þægileg og fátt fólk á ferð. Þau höfðu verið á skíðum einhverja stund og áð á hæð á leið sinni niður að næstu lyftu. Voru aðilar þarna með tveimur öðrum Íslendingum, eiginmanni stefnanda, (B), og (V). Er þau héldu ferðinni áfram fór (B) fyrstur, en nokkru síðar (H) og (S), en (V) síðastur. Ágreiningur er um það í málinu hvort (H) og (S) fóru samtímis af stað eða (H) fyrst og (S) síðar.
Stuttu eftir að þau lögðu af stað og er þau voru komin einhverja tugi metra niður brekkuna rákust þau harkalega saman með greindum afleiðingum. Ágreiningur er um það hvernig slysið bar að. Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi komið á eftir henni niður brekkuna á talsverðri ferð og skollið aftan á hana þar sem hún skíðaði á hægri ferð. Stefndi telur að þau hafi fyrst rennt sér sitt til hvorrar hliðar og hafi hvorugt verið á mikilli ferð, síðan hafi þau beygt þversum í brekkunni og komið hvort á móti öðru er þau lentu saman og hefði hann þá verið á hægri hönd stefnanda. Ljóst er að þau urðu hvors annars ekki vör fyrr en þau skullu saman. Enginn sjónarvottur var að slysinu sjálfu, en (V) var með þeim á áningarstað og sá snjó þyrlast upp þar sem hann skíðaði síðastur þeirra niður brekkuna, kom hann fyrstur á slysstað. Karlmennirnir voru allir vanir skíðamenn, stefnandi hafði mun minni reynslu af skíðamennsku en þó einhverja.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi stefnda, (S), til að greiða stefnanda, (H), 2.569.867 krónur auk 2% ársvaxta af þeirri fjárhæð frá 5. febrúar 1996 til 8. ágúst 1999 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags og 550.000 krónur í málskostnað.


Stefndi vildi ekki una niðurstöðu héraðsdóms og skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi lækkunar dómkröfu á grundvelli sakarskiptingar og verði málskostnaður þá felldur niður.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, þó þannig að dráttarvextir frá 1. júlí 2001 verði ákveðnir á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málið komið í Hæstarétt
(H) varð fyrir líkamstjóni er hún og (S) rákust saman í skíðabrekku með þeim afleiðingum að hún hlaut 25% varanlega örorku. Krafði hún (S) um skaðabætur vegna þessa. Engin vitni voru að slysinu, en með tilliti til áverka (S)og (H), framburðar þeirra sjálfra og vitnis sem komið hafði að þeim eftir slysið, var ekki talið, að (H) hefði tekist að sanna, að (S) bæri einn alla sök á því, hvernig fór. Þótti því eðlilegt að skipta sök til helminga og var (S) dæmdur til greiðslu skaðabóta í samræmi við þá niðurstöðu.
Í Hæstarétti segir: Eins og mál þetta liggur fyrir er ósannað, að áfrýjandi hafi skollið aftan á stefndu, eins og haldið er fram. Verður það bæði ráðið af lýsingu á meiðslum þeirra beggja og framburði vitnis um það, hvernig þau lágu samsíða í brekkunni, þegar að var komið eftir slysið, hann á vinstri hlið en hún á bakinu og snéri þó ívið að honum. Fyrir héraðsdómi kvaðst stefnda heldur ekki hafa gert sér grein fyrir því, hvar áfrýjandi lenti á henni. Ekki var um bratta brekku að ræða og verður að leggja til grundvallar, að þau hafi hvort um sig rennt sér í sveig frá hólnum og leiðir þeirra skorist þannig um það bil 100 metrum neðar, að áfrýjandi hafi verið á hægri hönd stefndu. Með tilliti til áverkanna er langlíklegast, að þau hafi bæði verið komin langleiðina úr aflíðandi beygju og þá rekist saman en þó ekki alveg beint hvort framan á annað. Þau hafa bæði borið, að þau hafi ekki veitt för hins athygli, þótt aðstæður í brekkunni virðist hafa verið með besta móti, veður gott og fátt fólk á ferð. Er óhjákvæmilegt að líta svo á, að þar hafi verið um að kenna stundar aðgæsluleysi af hálfu beggja. Stefndu hefur því ekki tekist að sanna, að áfrýjandi beri einn alla sök á því, hvernig fór. Eins og hér háttar til þykir eðlilegt að skipta sök til helminga.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti lögmaður áfrýjanda því yfir, að ekki væru gerðar sérstakar athugasemdir við ákvörðun fjárhæða í héraðsdómi, en upphafstíma dráttarvaxta var mótmælt. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefndu helming þeirrar fjárhæðar, sem héraðsdómari ákvað, eða 1.284.934 krónur. Með hliðsjón af því, að Vátryggingafélag Íslands hf., ábyrgðartryggjandi áfrýjanda, hafði jafnan boðið stefndu til sátta að greiða helming tjóns hennar þykir rétt, að bótafjárhæðin beri ekki dráttarvexti fyrr en frá uppsögu héraðsdóms en 2% ársvexti frá slysdegi til þess dags.
Áfrýjandi skal greiða stefndu hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.


Dómsorð:
Áfrýjandi, (S), greiði stefndu, (H), 1.284.934 krónur með 2% ársvöxtum frá 5. febrúar 1996 til 29. mars 2001, dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí sama ár en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefndu samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.


Dóma Héraðsdóms Reykjavíkor og Hæstaréttar Íslands með öllum nöfnum má lesa á vef Hæstaréttar Íslands.

Myndir af Internetinu og dómnum óviðkomandi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024