Dýpkun gekk vel í Grindavík
Í sumar hefur Hagtak hf. unnið við dýpkun og breikkun innri rennu í innsiglingunni í Grindavíkurhöfn. Að sögn Sigurðar A. Kristmundssonar hafnarstjóra hefur dýpkunin gengið samkvæmt áætlun og er áætlað að framkvæmdunum og frágangi ljúki á næstunni. Skip verða sífellt stærri og til þess að missa þau ekki frá bænum er þessi dýpkun nauðsynleg. Vefur Grindavíkurbæjar greinir frá þessu.
Þrír aðilar buðu í verkið og átti Hagtak lægsta tilboðið eða 122 milljónir króna. Kostnaðaráætlun var upp á 132 milljónir. Björgun bauð 198 milljónir og Ístak 154.
Dýpka átti í 7,5 metra dýpi og breikka innsiglinguna. Ákveðið var í samráði við verktaka að dýpka í 7 metra í stað 7,5 metra. Við það sparaðist um 1.800m3 sem verða grafnir upp innan hafnar í staðinn, á svokölluðu snúningssvæði.
Botn hafnarinnar er á klöpp að mestum hluta og var ekki unnt að grafa upp efnið sem fjarlægja þarf án þess að sundra því fyrst. Til þess voru notaðar kerfisbundnar sprengingar og notað um eitt tonn í hverja sprengingu. Þessar sprengingar geta verið óþægilegar fyrir bæjarbúa en þær gengu vel og ekki hafa borist kvartanir vegna þeirra.
„Hafnarvigtin er næst sprengisvæðinu og við urðum lítið varir við sprengingarnar, það hreyf-ist ekkert á borðum hjá okkur og ég hef ekki haft fregnir af skemmdum ," sagði Sigurður jafnframt.
Eftir þessar dýpkunarframkvæmdir verður höfnin enn öruggari en áður.
„Við erum jafnframt að undirbúa að ramma betur inn þau svæði sem skipin geta siglt um innan hafnarinnar, með baujum og öðrum merkingum í því skyni að auka öryggið enn frekar," sagði Sigurður að endingu.