Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Duus Safnahús og Hótel Keflavík verðlaunuð af ferðaþjónustunni
Föstudagur 16. mars 2018 kl. 09:46

Duus Safnahús og Hótel Keflavík verðlaunuð af ferðaþjónustunni

Duus Safnahús í Reykjanesbæ hlutu Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi á Vetrarfundi ferðaþjónustunnar sem haldinn var í gær. Hótel Keflavík fékk við sama tækifæri Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi.
 
Eggert Sólberg Jónsson, verkefnastjóri Reykjanes Geopark, og Þuríður Aradóttir Braun, forstöðumaður Markaðsstofu Reykjaness, afhentu Valgerði Guðmundsdóttur menningarfulltrúa og Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra Hvatningarverðlaunin og Steinþóri Jónssyni og Hildi Sigurðardóttur Þakkarverðlaunin.

Fyrir neðan myndina má sjá þær umsagnir sem fylgdu verðlaununum:

 
Duus Safnahús
 
Við getum sagt að menningararfur skilgreini uppruna okkar og tilveru. Við getum líka haldið því fram að miðlun menningarfsins sé mikilvægur hluti upplifunar gesta svæðisins. Á sama tíma og við þurfum að gæta að menningararfinum þurfum við að huga að samtímamenningunni sem með tímanum verður hluti af menningararfinum. 
 
Duushúsalengjan í Reykjanesbæ samanstendur af röð merkilegra bygginga frá ýmsum tímum. Elsta húsið, Bryggjuhúsið, var byggt árið 1877 og það yngsta, aðalinngangurinn, var byggður á síðasta ári, þ.e. 140 árum síðar. 
 
Í Duushúsum hefur í gegnum tíðina verið fjölbreytt starfsemi, m.a. pakkhús eða lagerhús, bíósalur, einn sá elsti á landinu, fiskverkun og kaffihús. Í dag er húsnæðið sem var um tíma illa farið aftur orðið stolt íbúa á svæðinu þar sem þessu gömlu fiskihúsum hefur verið breytt í glæsilegt menningarhús. Það má því segja að þau séu komin aftur í atvinnuskapandi rekstur og eru stolt íbúa á svæðinu.
 
Í dag eru þar átta sýningarsalir safnanna í Reykjanesbæ með breytilegum sýningum þar sem myndlist, sögu og náttúru er gerð skil á fjölbreytilegan máta. Duus Safnahús skipa því orðið stórt hlutverk í þjónustu við ferðamenn á Suðurnesjum sem ákjósanlegur staður til að koma við á og kynna sér íslenska menningu og náttúru. Stöðugur rekstur með föstum opnunartíma gerir það að verkum að ferðaþjónustufyrirtæki geta gert langtíma bókanir og hægt er að ganga að faglegri og öruggri þjónustu vísri.
 
Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness hafa ákveðið að veita Duus Safnahúsum Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum árið 2018 með hvatningu til Reykjanesbæjar og annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum að halda áfram á sömu braut, þ.e. að gæta að menningararifnum og huga að samtímamenningu á sama tíma.
 
 
Hótel Keflavík
 
Þrátt fyrir að alþjóðaflugvöllur hafi staðið í útjaðri Keflavíkur í áratugi var það fyrst árið 1986 sem fyrsta hótelið í bænum var opnað. Okkur kann að finnast það ótrúlegt í dag með 106 skráða gististaði á svæðinu. Þá eru aðeins 32 ár síðan. 
 
Í febrúar 1986 drógu feðgarnir Jón William Magnússon og Steinþór Jónsson fram teikningar af hóteli í bænum, réðu til sín verktaka og reistu 1.250 fermetra byggingu á fimm hæðum.
 
Árið 1986 var fjöldi ferðamanna á Íslandi aðeins brotabrot af því sem hann er í dag.
 
Afþreyingarmöguleikar og þjónusta var sömuleiðis ekki sú sama. Sagan segir að fyrstu gestir hótelsins hafi verið sjóstangveiðimenn og hafi fyrsti dagurinn farið í þrif þar sem þeir geymdu aflann undir rúmum.
 
Síðan þá hefur hótelið stækkað og þjónusta við ferðamenn aukist, t.d. var efsta hæð hótelsins endurnýjuð fyrir tveimur árum og þar opnað fimm stjörnu hótel, hið fyrsta á Íslandi. Á þessum tíma hefur hótelið þó verið rekið á sömu kennitölu og af sömu fjölskyldu.
 
Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness eru sammála um að Hótel Keflavík sé vel að því komið að hljóta þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi árið 2018, fyrir það frumkvöðlastarf sem unnið hefur verið.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024