Dularfullar rákir valda vangaveltum
Frétt vf.is fyrr í dag um hugsanlega geislamengum af völdum kafbátamastranna í Grindavík hefur vakið nokkra athygli. Myndirnar með fréttinni sýna þéttar, reglulegar rákir í gróðri umhverfis möstrin og hafa margir velt vöngum yfir tilurð þeirra. Ekki skal fullyrt að um geislamengun sé að ræða en óneitanlega kann fólk að velta því fyrir sér, eins og kom fram í fréttinni, allavega á meðan ekki fæst önnur ásættanleg skýring.
Nokkrir hafa sent okkur töluvpóst í dag þar sem þeirri spurningu er velt upp hvort rákirnar séu tilkomnar vegna víranna sem halda möstrunum uppi. Einn veltir því fyrir sér hvort stögin hafi hugsanlega veri ötuð ryðvarnarefni sem hafi lekið niður af vírunum og myndað rákirnar. Hins vegar er ólíklegt að stögin séu svona mörg og þétt en tekið skal fram að við höfum ekki kannað það sérstaklega.
Brottfluttur Grindvíkingur segist í pósti til okkar hafa heyrt að rákirnar væri vegna jarðrasks þar sem vírar hefðu verið lagðir út frá möstrunum út fyrir ystu stagfestingar. Tilgangurinn með þeim vírum hafi verið að jafna út hugsanlega spennu sem getur myndast komi elding í möstrin. Sú skýring þykir ekki ósennileg.
Ef einhver veit þetta fyrir víst væri gaman að fá eitthvað um að á [email protected]
Hvað sem öllum vangaveltur líður þá er ljóst að bæjarbúar í Grindavík vilja möstrin burtu, eins og kom skýrt fram á íbúafundi fyrr í vetur. Þar var skorað á ríkisstjórnina að láta fjarlægja þau hið fyrsta.
---
Tengd frétt: