Duga engar afsakanir núna
-segir Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar
Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar í Reykjanesbæ, telur að flestir hafi gert sér grein fyrir stöðu mála og að talsverk verk væri fyrir höndum hvað varðar fjármál Reykjanesbæjar. Hann segir viðbrögð bæjarbúa eftir íbúafundinn í Stapa hafa verið jákvæð. Guðbrandur segir þó að það hafi komið sér á óvart hversu friðsamur fundurinn hafi verið. „Ég veit ekki endilega hvort ég hafi búist við látum en fundurinn var þannig settur upp að verið var að upplýsa, frekar en einhver bardagi milli pólitíkusa, það virðist hafa heppnast ágætlega.“
Horfir Guðbrandur nú fram á veg eða hugsar til fortíðar?
„Ég er ekki hættur að spá í fortíðina. Við erum öll að koma einhvers staðar frá og það skiptir máli að við lærum af reynslunni og við vitum hvaðan við komum. Ég lít samt þannig á að samstaða um aðgerðir sé mjög mikilvæg, þess vegna er ég að einblína á það sem þarf að ráðast í frekar en það sem hefur gerst. Þó ekki þannig að það sé bara gleymt og grafið sem hefur gerst.“
Guðbrandur segir fólk vera sammála um meginmarkmið og um það sem þarf til að ná tökum á því ástandi sem allir séu meðvitaðir um að sé til staðar. „Við eigum eftir að fara í greiningu um hvað eigi að gera og þá er ekkert víst að allir verði sammála um það. Nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar til þess að ná þessum markmiðum vitum við ekki núna á þessu stigi máls og samstaða getur því brostið. Við erum auðvitað meðvituð um þær aðgerðir sem þarf að ráðast þarf í til þess að ná markmiðunum, sem við höfum ekkert val um að þurfi að ná. Það eru skýr lagafyrirmæli um það sem þarf að nást hérna.“ Hann segir meirihlutann vera samtaka í því sem þarf að gera og unnið sé að því á hverjum einasta degi við það að kortleggja og reyna að átta sig á því hvernig farið verði að því að leysa málin. „Það er algjör samstaða í nýjum meirihluta og hjá nýjum bæjarstjóra, um hvernig við ætlum að gera þetta.“
Finnst þér að einhver eigi að axla ábyrgð á þessari stöðu?
„Ég held að kjósendur hafi látið menn axla ábyrgð í síðustu kosningum, það duga samt engar réttlætingar í dag finnst mér, ég held við verðum að fara varlega í réttlætingar yfir stöðunni. Það duga engar afsakanir núna. Ég ætla ekkert að vera að eyða tíma mínum í að fjalla um það, nema þá að mér ofbjóði hvernig framsetning mála er. Ég hef bara verk að vinna og ætla að einblína á það. Þetta er risavaxið verkefni og við þurfum á öllum fúsum höndum að halda á næstu árum til þess að ná markmiðum. Vonandi tekst okkur að mynda um það breiða samstöðu, sérstaklega á meðal íbúa.“