Drukkinn ökumaður stöðvaður í startholunum
Árvökull lögreglumaður á Suðurnesjum stöðvaði ölvaðan mann sem sestur var undir stýri í Keflavík og hugðist aka af stað. Lögreglumenn voru við hefðbundið eftirlit við skemmtistaði umdæmisins þegar einn þeirra kom auga á mann sem skaust baka til út af skemmtistað. Lögreglumaðurinn hélt á eftir honum og sá að hann setti bifreið í gang. Stækan áfengisþef lagði af manninum, þegar hann var tekinn tali, og viðurkenndi hann neyslu áfengis. Honum var tjáð að hann gæti sótt bíllyklana á lögreglustöð þegar runnið væri af honum.
Þá voru tveir ökumenn til viðbótar teknir vegna gruns um ölvun við akstur í umdæminu. Annar þeirra ók einnig yfir leyfilegum hámarkshraða, því bifreið hans mældist á 139 km. hraða þar sem hámrkshraði er 90 km. á klukkustund.