Drukkinn ökumaður á flótta undan lögreglu
Drukkinn ökumaður, sem lögreglan á Suðurnesjum hafði nýverið afskipti af reyndi að komast undan, sem varð til þess að hann á yfir höfði sér kæru vegna fjölmargra brota.
Maðurinn tók bifreið ófrjálsri hendi og ók af stað. Lögregla mældi hann á rúmlega 80 km. hraða í íbúðahverfi þar sem hámarkshraði er 30 km. á klukkustund. Á þessum hraða ók hann og gaf hvorki stefnuljós né virti biðskyldu. Á ferðinni ók hann utan í aðra bifreið og skemmdi hana. Eftir skamma stund hafnaði svo bifreiðin sem hann ók utan vegar og skemmdist verulega. Hún var fjarlægð með dráttarbifreið og skráningarnúmer fjarlægð af henni. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð, þar sem hann neitaði að gangast undir sýnatökur. Hann var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.