Drukkinn leigubílstjóri við Leifsstöð
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í morgun afskipti af leigubílstjóra á Keflavíkurflugvelli sem grunaður var um ölvun við akstur. Höfðu vitni við flugstöðina fundið áfengislykt af manninum og hringt í lögregluna. Frá þessu er greint á mbl.is.
Leigubílstjórinn var ekki staðinn að akstri en hann viðurkenndi sjálfur að hafa ekið undir áhrifum áfengis. Mældist hann talsvert yfir eðlilegum mörkum.
Bílstjórinn sagðist hafa fengið sér nokkra bjóra í gærkvöldi, farið seint að sofa og vaknað snemma í því skyni að keyra upp í flugstöð til að taka á móti farþegum. Hann hafði ekki ekið með farþega í bílnum þegar lögreglan náði af honum tali.
Lögreglumenn fluttu leigubílstjórann á lögreglustöðina þar sem hann viðurkenndi áfengisdrykkju og akstur undir áhrifum. Þar voru einnig sýni tekin, eins og fyrr segir. Síðar í dag, þegar runnið er af honum, mun leigubílstjórinn geta náð í bíllyklana sína á lögreglustöðina en að yfirheyrslum loknum tók hann leigubíl heim, að því er segir í frétt mbl.is af málinu.