Drög að virkjunarleyfi til athugunar
HS Orka hefur til umsagnar drög Orkustofnunar að virkjunarleyfi vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar. Júlíus Jónsson forstjóri vonast til að nú sjáist fyrir endann á ferli sem hófst með umsókn fyrirtækisins í október 2009. Frá þessu er greint á mbl.is.
Afkastageta Reykjanesvirkjunar er nú 100 megawött. HS Orka áformar að stækka jarðvarmavirkjunina um 80 MW, meðal annars til að selja orku til fyrsta áfanga væntanlegs álvers Norðuráls í Helguvík. Ætlunin er að framleiða 50 MW með stækkun virkjunarinnar og er þegar búið að kaupa til landsins hverfil til þess. Þá verður afkastagetan aukin um 30 MW til viðbótar með betri nýtingu jarðhitavökvans.
HS Orka sótti um virkjunarleyfi til Orkustofnunar 21. október 2009. Málið hefur verið til athugunar hjá Orkustofnun og HS Orka hefur þurft að afla frekari gagna. Orkustofnun þarf að meta það hvort jarðhitasvæðið þoli þessa aukningu.
Júlíus segir að framkvæmdir við virkjun geti ekki hafist fyrr en gengið hafi verið frá samningum um sölu orkunnar og síðan fjármögnun í framhaldi af því. Norðurál er í viðræðum við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur um orkuafhendingu.
Bora þarf 7 - 9 háhitaholur vegna stækkunar virkjunarinnar á Reykjanesi. Jarðbor stendur á einu borstæðinu, tilbúinn til verka. Júlíus segir hugsanlegt að byrjað verði á einni holu, þegar virkjunarleyfi fæst.