Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 2. mars 2001 kl. 10:25

Dregur úr neyslu vímuefna

Dregið hefur úr hassneyslu og neyslu annarra vímuefna á Suðurnesjum hin síðari ár. Þetta kom fram í skýrslu sem fyrirtækið Rannsóknir og greining lauk nýlega við að gera rannsókn á högum og líðan barna í 9. og 10. bekkjum grunnskóla á Suðurnesjum en í skýrslunni er einnig gerður samanburður á niðurstöðum sambærilegrar skýrslu sem unnin var árið 1997.
Skýrslan er mjög viðamikil en í henni eru m.a. könnuð tengsla unglinga við foreldra, vímuefnanotkun, andleg og líkamleg líðan, íþróttaiðkun o.fl. VF mun fjalla ítarlega um niðurstöður skýrslunnar á næstu vikum og taka fyrir ákveðinn lið í hvert sinn. Þeir sem vilja skoða skýrsluna í heild sinni geta fengið hana á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, www.sss.is
Þess má geta að samanburðarhóparnir eru Reykjavík, landið allt, Reykjanesbær og Suðurnes en þá er átt Voga, Grindavík, Sandgerði og Garð.

Færri sem reykja hass
Neysla á hassi jókst talsvert á tímabilinu 1989-1998 en svo virðist sem dregið hafi úr henni síðustu ár. Hassneysla nemenda í 10. bekk hefur dregist saman frá árinu 1999 á öllum stöðum, að Suðurnesjum undanskildum en þar stendur hún í stað, í 12 %. Árið 2000 segjast aðeins 5% nemenda í 10. bekk í Reykjanesbæ hafa reykt hass en árið 1999 höfðu 15% nemenda prófað að reykja þetta fíkniefni. Þegar tölur um hassneyslu eru skoðaðar frá árinu 1997 til 2000 kemur í ljós að hassneysla er hlutfallslega minni í Reykjanesbæ og á Suðurnesjum í samanburði við Reykjavík og landið í heild, en þar hefur hassneysla verið á bilinu 12-20%. Hassneysla er mest meðal nemenda í Reykjavík.

Svefntöflur vinsælar
Krakkarnir voru einnig spurðir um neyslu á öðrum vímuefnum, eins og svefntöflum sem ekki er ávísað ef læknum, sniffi, sveppum og e-töflum. Flestir hafa notað svefntöflur eða um 12% 10. bekkinga á Suðurnesjum og 9% í Reykjanesbæ en landsmeðaltalið er 10%.
Töluverður munur á milli svæða kemur fram þegar neysla á sniffi er skoðuð. Hlutfallslega fæstir nemendur í Reykjanesbæ hafa sniffað, 2% en Suðurnes eru með 8% hlutfall, landið 7% og Reykjavík 6%. Hvað varðar neyslu á e-töflum og sveppum kemur ekki fram teljandi munur á milli svæða, en á bilinu 1-3% nemenda í 10. bekk hafa prófað þau efni. Reykjanesbær er í báðum tilfellum með lægsta hlutfallið 1-2% en Suðurnesin hæst hlutfall í samanburði við önnur svæði, eða 3% í báðum tilfellum.

Staðreyndir um sniffefni

Þegar sniffefnum er andað niður í lungun, koma þau af stað einkennum sem líkjast vímu. Í þeim ýmis efnasambönd sem er mjög skaðleg fyrir líkamann.

Það ER hættulegt að sniffa!
Eiturgufurnar sem orsaka vímuástandið skaða líkamann, bæði taugakerfið og önnur líffæri. Eiturgufurnar skerða hæfni lungnanna til að vinna súrefni fyrir blóðrásina, þannig að sá sem sniffar býr alltaf við verulegan súrefnisskort. Þessar gufur geta leitt til tímabundinnar blindu
og þær geta skaðað lungu, heila og lifur. Vitað er um allmörg dauðsföll vegna sniffs. Í sumum tilfellum vegna köfnunar. Það gerist þannig að neytandinn missir meðvitund og kafnar í plastpokanum sem hann geymir efnið í. Í öðrum tifellum hafa hjartsláttartruflanir sem gjarnanfylgja sniffvímu leitt til hjartastopps.
Enn fleiri dæmi eru til um einstaklinga sem liðið hafa varanlegn skaða af völdum sniffs, þó ekki hafi það leitt þá til dauða. Um er að ræða varanlega lömun, mikla skerðingu á greind o.fl.

·Sniff getur leitt til óbætanlegs skaða í lungum, heila, lifur og beinmerg.
·Sniff getur leitt til meðvitundarleysis og jafnvel dauða.
·Sniff getur leitt til neyslu annarra vímuefna.

Ofskynjunarsveppir: Geta valdið geðveiki

Neysla á sveppum er mjög tengd kannabisneyslu ungmenna og það eru sömu krakkarnir og nota hass hér á landi sem sækja í þessa neyslu. Sveppirnir eru etnir hráir eða þurrkaðir. Stundum
er búið til úr þeim te eða þeir reyktir með hassi eða maríjúana.
Aðalhættan við að nota sveppi er sú að við neysluna getur neytandinn orðið geðveikur um tíma eða hrundið af stað alvarlegri geðveiki. Hægt er að deila um hverjir það eru sem þannig geta orðið geðveikir eða geðveilir. Flestir eru þó á því að veikleiki á geði þurfi að vera fyrir hendi til að slíkt komi fram. Erfitt er að segja fyrir um hverjir þola slíkt sveppaát en hægt að fullyrða að 15-20% okkar megum alls ekki nota þessa sveppi. Þeir sem eru í sérstakri hættu eru þeir sem eru geðveilir eða geðveikir eða í ætt þeirra er geðveiki. Aðrar aukaverkanir sem geta komið fram við sveppanotkun eru ógleði, uppköst, óþægindi í kvið, höfuðverkur, hár blóðþrýstingur og þanin ljósop og höfgi.

Ecstasy: Gleði sem breytist í martröð!

E-töflur hafa verið markaðssettar sem sárasaklaus gleðigjafi. Reyndin hefur sýnt allt annað, fíkn,
alvarleg andleg og líkamleg vandamál af þeirra völdum og einstaka dauðsföll.

Ofsjónir og ofsahræðsla
Í Ecstasy eða E-pillunni sem einnig er nefnd helsæla er amfetamínafbrigði sem virkar líkt og amfetamín en hefur um leið áhrif á skynjun neytandans og veldur því öðru vísi vímu en amfetamínið. Efnið veldur hækkuðum blóðþrýstingi, hröðum hjartslætti, hraðari öndun og munnþurrki sem er í réttu hlutfalli við stærð skammtanna. Það veldur breyttri skynjun en sjaldnast hreinum ofskynjunum. Í stórum skömmtum koma fram ofsjónir, óróleiki, hiti og ofsahræðsla. Þar sem þol gegn vímunni myndast fljótar en gegn ýmsum hliðarverkunum geta vaxandi skammtar valdið alvarlegum einkennum .

Fylgifiskar eru þunglyndi og sjálfsvíg
Hætta er á skyndidauða og alvarlegum eitrunum af völdum vímunnar. Heilablóðfall hefur verið rakið til E-töfluneyslu svo og svæsnar lifrarbólgur. Í öðru lagi getur efnið valdið sturlun hjá heilbrigðum einstaklingum og auk þess hrint af stað alvarlegum geðsjúkdómi hjá
einstaklingum sem hafa geðveilu fyrir. Neysla á Helsælu getur einnig valdið skyndilegu og svæsnu þunglyndi í neyslunni og rétt eftir hana og svipar að þessu leiti bæði til LSD og amfetamíns. Þetta getur verið mjög hættulegt þegar ungir og hömlulitlir neytendur eiga í hlut og stuðlað að sjálfsvígum.

Heilaskemmdir
Sannað þykir að efnið getur valdið heilaskemmdum við tiltölulega litla notkun. Skemmdirnar koma þá fram sem persónuleikabreytingar sem einkennast af varanlegu óöryggi,
þunglyndi eða kvíða. Menn hafa einnig sýnt fram á vitsmunaskerðingu sem kemur fram sem truflun á minni og einbeitingu. Vísindamenn hafa líka haft af því vaxandi áhyggjur að nýjar rannsóknir á amfetamíni og skyldum efni og þá um leið Ecstasy virðast benda til þess að slík efni valdið meiri heilaskemmdum við langvarandi notkun en talið var áður.

Hass ER ávanabindandi

Ungum sjúklingum á Vogi hefur fjölgað undanfarin ár og er hass- og amfetamínneysla vaxandi í þeim hópi.
Umræða um lögleiðingu kannabisefna hefur verið veruleg á opinberum vettvangi, þó hún eigi sér ekki háværa fylgismenn hérlendis. Íslensk ungmenni fara engu að síður ekki varhluta af þessum straumum og þeir sem umgangast unglinga í leik og starfi telja að jákvæð viðhorf til kannabisneyslu séu mjög útbreidd. Á netinu er t.d. haldið uppi áróðri um að hass sé skaðlaust vímuefni, en það er alls ekki rétt, skaðlaust vímuefni hefur enn ekki litið dagsins ljós.
Hass breytir vitundarástandi neytandans, og skerðir dómgreind hans og hæfni, hefur neikvæð langtímaáhrif á starfsemi miðtaugakerfisins. Hass er einnig líkamlega og andlega vanabindandi.
Allri neyslu fylgja ýmis tól og tæki sem nauðsynleg eru við meðhöndlun efnanna og neyslu þeirra. Foreldrar ættu því að hafa augun opin fyrir ýmsum áhöldum sem leynst geta í herbergi barnsins, í ruslafötum, vösum eða annars staðar þar sem barnið er líklegt til að fela hluti sem ekki mega vera fyrir allra augum. Foreldrar ættu einnig að hafa í huga að þegar hassi er blandað við tóbak
má gjarnan finna filtera og bréf utan af sígarettum í vösum og ruslafötum.

Frekari upplýsingar um vímuefni er að finna á heimasíðu SÁÁ, www.saa.is


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024