Dreginn af strandstað í nótt
Varðskipið Freyja losaði grænlenska fiskiskipið af strandstað undan Vatnsleysuströnd á þriðja tímanum í nótt. Vel gekk að draga skipið til Hafnarfjarðar. Fiskiskipið lagðist að bryggju á áttunda tímanum í morgun með aðstoð dráttarbátsins Hamars.
Ákveðið var að flytja fjórtán menn úr áhöfninni frá borði í nótt og voru björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sjöfn og Stefnir fengnir til verksins. Mennirnir voru fluttir í land í Vogum þar sem björgunarsveitir tóku á móti þeim. Þá voru eftir um borð fimm menn úr áhöfn skipsins auk tveggja varðskipsmanna.
Undirbúningur björgunar skipsins gekk vel og með aðstoð áhafnar varðbátsins Óðins og tveggja háseta varðskipsins, sem fluttir voru um borð í skipið til aðstoðar, var 750 metra langri dráttartaug komið um borð laust eftir klukkan tvö í nótt.
Einhver leki var kominn að skipinu en dælur höfðu vel undan Dælur frá varðskipinu þar á meðal. Klukkan 2:38 hélt varðskipið Freyja áleiðis með fiskiskipið til Hafnarfjarðar og tók dráttarbáturinn Hamar við drættinum síðasta spölinn að bryggju í Hafnarfirði í morgun.
Grænlenska fiskiskipið, Masilik, sigldi í strand við Vatnsleysuströnd um kl. 19 í gærkvöldi. Skipið strandaði um 500 metra frá landi. Aðstæður á strandstað voru ágætar, aflandsvindur og ekki mikill sjógangur. Rannsóknarnefnd samgögnuslysa er komin með atvikið til rannsóknar.
Masilik á strandstað í gærkvöldi. VF-myndir: Bárður Sindri Hilmarsson
Dráttartaug komið á milli Freyju og grænlenska skipsins. VF-myndir: Bárður Sindri Hilmarsson