Dregið um lóðir í Dalshverfi II
Vel á þriðja hundrað úthlutanir á íbúðalóðum hafa nú verið samþykktar af Umhverfis-og skipulagsráði Reykjanesbæjar en á þriðjudag var dregið um þær 77 einbýlishúsalóðir sem til úthlutunar voru í Dalshverfi II. Í pottinum voru 109 umsóknir. Jafnframt var 16 parhúsalóðum úthlutað í sama hverfi.
Að sögn Steinþórs Jónssonar, formanns nefndarinnar, fara þeir umsækjendur sem ekki fengu úthlutað, á biðlista. Hins vegar megi reikna með að einhverjir af þeim sem dregnir voru út, hætti við og því sé ekki öll nótt úti enn.
Næst liggur fyrir að úthluta í Stapahverfi og er stefnt að því í næsta mánuði. Að sögn Steinþórs lætur nærri að með sama áframhaldi muni ný 5000 manna byggð rísa á næstu þremur árum í þeim nýju hverfum Reykjanesbæjar sem búið er að skipuleggja. Mikil ásókn er í lóðir og virðist hún ekkert vera að minnka þrátt fyrir þær lóðaúthlutanir sem þegar hafa farið fram. Steinþór segir þessi hverfi eftirsóknarverð ekki síst vegna þess að skipulagið geri nær eingöngu ráð fyrir sérbýlum í fallegum og fjölskylduvænum hverfum.
Á myndinni eru Viðar Már Aðalsteinsson, framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs og Steinþór Jónsson, formaður Umhverfis- og skipulagsráðs, að skoða skipulagsteikningar af fyrirhuguðum hverfum í Reykjanesbæ.