Fréttir

Dósaseli lokað um stund vegna kakkalakka
Fimmtudagur 18. ágúst 2016 kl. 13:40

Dósaseli lokað um stund vegna kakkalakka

Loka þurfti Dósaseli í Reykjanesbæ klukkan 16:00 síðasta þriðjudag vegna kakkalakka sem voru í plastpoka með dósum. Að sögn Ingu Jónu Björgvinsdóttur, forstöðumanns Dósasels, var mikil mildi að starfsfólk Dósasels kom strax auga á kakkalakkana þegar viðskiptavinur tæmdi plastpoka fullan af dósum og um tíu kakkalökkum. „Við vorum heppin að það uppgötvaðist strax að þarna væru kakkalakkar á ferðinni. Við týndum alla kakkalakkana upp, tæmdum allt hjá okkur, tókum allar dósir og flöskur og annað lauslegt og því hefur verið fargað. Svo spúluðum við með sterkri sápu og meindýraeyðir hefur staðfest að hér eru ekki neinir kakkalakkar lengur,“ segir hún. Dósasel var svo opnað aftur í gær.

Síðast komu kakkalakkar með dósum í Dósasel fyrir átta árum en þá uppgötvuðust meindýrin ekki eins fljótt og nú og eitraði meindýraeyðir þá húsnæðið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Að sögn Ragnars Guðleifssonar, meindýraeyðis, hefur það aukist töluvert á Suðurnesjum og víðar um landið að óskað sé eftir að eitrað sé fyrir kakkalökkum. Samkvæmt upplýsingum á vef tímaritsins Lifandi vísinda eru til meir en 3.500 tegundir af kakkalökkum í heiminum.  Það er sá evrópski sem hefur látið á sér kræla hér á landi.