Dósasel fékk nýjan flutningabíl
Þroskahjálp á Suðurnesjum hefur engið afhenta nýja bifreið fyrir Dósasel sem Þroskahjálp rekur. Bifreiðin er notuð til að sækja gjafadósir og flöskur sem Þroskahjálp á Suðurnesjum áskotnast en t.a.m. þarf að fara alla daga í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og á fleiri staði til að sækja einnota drykkjarumbúðir með skilagjaldi sem gefnar eru til Þroskahjálpar á Suðurnesjum.
Bifreiðin er af gerðinni Ford Transit og er með sérsmíðuðum kassa og vörulyftu. Bíllinn er innfluttur fyrir Þroskahjálp á Suðurnesjum frá Póllandi, þar sem smíðað var á bílinn. Pólska fyrirtækið gaf myndarlegan afslátt af vinnu sinni við bílinn og velunnarar Þroskahjálpar sáu um innflutning á bílnum án þess að taka þóknanir fyrir. Þá hefur Þroskahjálp á Suðurnesjum staðið straum af kostnaði við að mennta bílstjóra á bílinn sem þurfti aukin ökuréttindi.
Mikil afkastaaukning hefur orðið í Dósaseli í Reykjanesbæ á síðustu vikum eftir að móttökuvélum fyrir flösku- og dósamóttöku var fjölgað úr einni í tvær. Mikið magn einnota drykkjarumbúða fer þar í gegn á hverjum degi en Dósasel getur tekið við meiru og eru Suðurnesjabúar hvattir til að koma með umbúðir sínar þangað og fá greitt skilagjaldið þar. Það skiptir Þroskahjálp miklu því Þroskahjálp á Suðurnesjum fær greitt gjald fyrir hverja einingu sem fer í gegnum móttökustöðina.