Doktorsnemi úr Garðinum fær styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands
Tólf doktorsnemar við Háskóla Íslands fengu í dag úthlutað vísindastyrkjum að upphæð 40 milljónir króna úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands. Úthlutun styrkjanna fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands. Um er að ræða aukaúthlutun í tilefni af aldarafmæli háskólans. Einn þessara styrkþega er Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir úr Garðinum.
Rannsóknaverkefnin sem voru styrkt að þessu sinni snerta fjölmargar fræðigreinar, þar á meðal læknisfræði, líffræði, lyfjafræði, ensku, fjölmiðlafræði, uppeldis- og menntunarfræði, heimspeki, vélaverkfræði og eðlisfræði. Sjö verkefni hljóta styrki til þriggja ára, tvö verkefni til tveggja ára og þrír styrkir eru veittir til doktorsnema sem ljúka rannsóknum á næsta ári. Fjórir styrkþeganna koma erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands.
Fyrr á árinu fengu 15 doktorsnemar styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands, að fjárhæð um 60 milljónir króna. Vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins að undanförnu og í tilefni 100 ára afmælis Háskóla Íslands var ákveðið að úthluta úr honum 40 milljónum króna til viðbótar nú í október. Samanlagðir styrkir sjóðsins til doktorsnema við Háskóla Íslands á árinu nema því 100 milljónum króna sem ótvírætt kemur doktorsnemum við Háskóla Íslands og rannsóknarstarfi í íslensku samfélagi mjög til góða. Þetta er í fimmta sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum.
Um styrkinn til Guðbjargar Rannveigar Jóhannesdóttur
Sagnfræði- og heimspekideild
Íslenskt landslag: fagurfræði og verndargildi
Markmið verkefnisins er að öðlast dýpri skilning á merkingu landslags og þeim gildum sem eru tengd við fagurfræðilega upplifun af íslensku landslagi. Rannsóknin byggist bæði á aðferðum fagurfræði náttúrunnar og fyrirbærafræðilegum/eigindlegum rannsóknaraðferðum. Ætlunin er í fyrsta lagi að rannsaka hugtökin landslag, fegurð og fagurfræði frá fyrirbærafræðilegu sjónarhorni. Í öðru lagi mun verkefnið snúa að rannsókn á raunverulegum fagurfræðilegum upplifunum af tveimur landslagsgerðum sem einkenna Ísland sérstaklega, háhitasvæðum og jöklum. Þar er notast við fyrirbærafræðilegar og eigindlegar rannsóknaraðferðir.
Leiðbeinandi: Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild.
Myndin: Guðbjörg Rannveig er þriðja frá hægri.