Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dofinn af kulda: datt fjórum sinnum í sjóinn af stefninu
Miðvikudagur 7. janúar 2004 kl. 21:07

Dofinn af kulda: datt fjórum sinnum í sjóinn af stefninu

-Skipbrotsmaðurinn Sævar Brynjólfsson af Húna KE í viðtali við Víkurfréttir.

„Ég var lagður af stað í land og var inn í stýrishúsi þegar það kviknaði aðvörunarljós um að það væri kominn leki að vélarrúminu. Ég var með belgi útbyrðis og hélt fyrst að það pusaði inn á dekkið vegna þeirra. Ég sló þá af og fór út á dekk til að athuga hvort það pusaði vegna þeirra, en um leið og ég var kominn á dekkið fór báturinn að halla og þá stökk ég fram í stýrishús. Báturinn sökk lóðrétt samstundis og ég festist inn í stýrishúsinu og sjórinn fyllti það um leið,“ segir Sævar Brynjólfsson skipstjóri í samtali við Víkurfréttir, en Sævar bjargaðist er Húni KE sökk út af Garðskaga í gærkvöldi. Sævar sem er 62 ára gamall hefur stundað sjómennsku frá 14 ára aldri og verið skipstjóri á ýmsum skipum og bátum frá  árinu 1962.

Sævar segist hafa þurft að hafa hraðar hendur við að komast út úr stýrishúsinu og hann segir að það hafi verið erfitt. „Ég var lokaður inn í stýrishúsinu þegar allt fylltist af sjó og ég barðist nokkuð lengi við að koma mér út. Reyndi meðal annars að losa björgunarbátinn, en ég hafði ekki þrek til þess vegna loftskorts.“ Sævar var í ullarnærfötum innan undir fötunum, auk þess sem hann var í gúmmíbuxum og stígvélum sem hann náði að fara úr eftir að hann náði að komast upp á stefni bátsins.

Þegar Sævar náði að komast út úr stýrishúsinu var báturinn orðinn lóðréttur og stefnið stóð upp úr. Hann segist hafa fikrað sig upp á stefnið þar sem hann hélt sér. „Ég stóð með fæturna á rekkverkinu og hélt mér þannig og batt við mig fangalínu. Á meðan ég var þarna á stefninu datt ég fjórum sinnum í sjóinn og gat þá togað mig upp aftur með fangalínunni,“ segir Sævar en hann var orðinn mjög dofinn eftir um 90 mínútna dvöl á stefni bátsins. Sævar segir að vegna undiröldu hafi stefni bátsins dúað í sjónum, en hann segist ekki hafa verið hræddur um að báturinn sykki alveg.

Eins og áður segir reyndi Sævar að losa gúmmíbátinn þegar hann var í stýrishúsinu en það tókst ekki. Sævar vonaðist allan tímann til að báturinn myndi losna. „Ég vildi með öllu móti reyna að gera vart við mig með blysi og ég var farinn að hugleiða það að kafa niður með bátnum til að reyna að losa gúmmíbátinn. Í kringum bátinn voru línubalar og línan farin úr þeim þannig að ég þorði hinsvegar ekki að kafa af hættu við að festast í línunni.“

Sævar segist hafa verið orðinn vonlítill um að verða bjargað en hann sá alltaf skipaljós í kringum sig. „Ég horfði helst til himins í von um að sjá flugvél,“ segir hann með bros á vör. Þegar Sólborgin kom upp að Sævari varð hann feginn. „Ég sá þá ekki fyrr en þeir voru komnir alveg upp að mér,“ segir Sævar en skipverjar á Sólborgu köstuðu til hans björgunarhring og drógu hann um borð. Þegar þangað var komið klæddu skipverjar hann úr fötum, færðu í sturtu og elduðu handa honum súpu.

„Ég var ekkert hræddur við það að deyja. Ég beið eftir því að þessi kæruleysistilfinning kæmi yfir mig áður en ég færi yfir móðuna miklu,“ segir Sævar og þegar hann er spurður að því hvort hann sé hættur sjómennsku svarar hann: „Ég ætla svo sannarlega að vona ekki.“ Eftir að komið var með Sævar í land fór hann til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Hann segist vera með strengi, en annars líði honum vel. Og í hans huga er ekki spurning um hvað varð honum til lífs. „Tilkynningaskyldan sannaði gildi sitt í þessu tilviki. Þetta sýnir hve gríðarlega nauðsynlegt tæki hún er fyrir íslenska sjómenn. Það þarf að halda áfram að þróa þessa tækni og koma þessum dauðu punktum sem eru út á sjó í samband þannig að skyldan virki allsstaðar,“ segir Sævar og hann þakkar einnig skipverjum á Sólborgu og Vigra  fyrir björgunina og einnig árvekni Tilkynningaskyldunnar. „Ullarnærfötin voru líka einn þátturinn í að ég hélt lífi þarna,“ segir Sævar en hann fékk nærfötin í gjöf frá eiginkonu sinni Ingibjörgu Hafliðadóttur.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Sævar ásamt afabörnunum sínum í Keflavík: f.v. Einar Sveinn, Sævar, Unnar Geir og nafni hans Sævar Magnús.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024