Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

„Djöfulsins lygaplagg”
Föstudagur 22. október 2010 kl. 15:54

„Djöfulsins lygaplagg”


Sveinn Margeirsson frá Félagi stofnfjáreigenda BYR flutti athyglisverða ræðu á fundi stofnfjáreigenda SpKef í gær en hann taldi margt líkt með rekstri SpKef og BYR sem fara yrði í saumana á. Sveinn sagði stofnfjáreigendur BYR hafa fengið rangar upplýsingar og kallaði útgefandalýsingu BYR „djöfulsins lygaplagg”. Hann taldi ekki ólíklegt að  stofnfjáreigendur í SpKef hafi einnig verið mataðir á röngum upplýsingum fyrir stofnfjárútboðið í árslok 2007.
Sveinn sagði bankakerfið hafa verið algjörlega helsjúkt á árunum fyrir Hrun. Sú kunni að hafa verið raunin með SpKef. „Þá er bara spurningin fyrir ykkur hvort þið viljið að það komi fram eða ekki,“ sagði Sveinn og hvatti stofnfjáreigendur til að leiða það mál til lykta.


Margt svipað með BYR og SpKef

„Það er mjög alvarlegt mál fyrir ykkur sem hér búið ef þessi mál verða ekki krufin algjörlega til mergjar. Það er mjög slæmt að lenda í slíkum hamförum, sem ég vil segja að séu manngerð. En það er ennþá verra ef ekki er krufið hvers vegna slíkt gerðist,“ sagði Sveinn m.a. í ræðu sinni. „Það sem við höfum séð í Byr er því miður lýsandi fyrir þá spillingu sem viðgekkst hér á Íslandi. Ég tek það skýrt fram að ég þekki ekki rekstur SpKef til hlítar þannig að ég ætla ekki að fullyrða svo hafi einnig verið hér. En það sem ég sé nú þegar eftir að hafa skoðað ársreikninga 2007 og 2008 og útgefendalýsingu 2007 að þá svipar því afskaplega mikið til þess sem ég sá í BYR,“ sagði Sveinn ennfremur.

Í máli Sveins kom fram að í árslok 2007 hafi eigið fé SpKef  verið sagt 25 milljarðar. Þar af hafi hlutabréf og hlutdeildarfélög verið um það bil 14 milljarðar. Árið eftir, þ.e. 2008, hafi eigið fé verið sagt 5,5 milljarðar. Lækkunin hafi því verið í kringum 20 milljarða á einu ári. Hlutdeildarfélög og hlutabréf hafi þá verið 2,8 milljarðar.

Voru stofnfjáreigendur plataðir?

Sveinn gerði því næst að umtalsefni stofnfjárútboð SpKef 2007 og sýndi viðstöddum útprentun af Viðauka við lýsingu Sparisjóðsins í Keflavík sem staðfestur var af Fjármálaeftirlitinu í september 2007 vegna stofnfjárútboðs í desember það sama ár.

„Það sem þið fáið til að meta hvort þið eigið að leggja fé í þetta fyrirtæki er afskaplega fallegur rekstur. Þið fáið að sjá að allt sé í besta lagi, það sé til nóg af peningum og engin áhætta fólgin í þessum viðskiptum.
Nú þekki ég ekki þau persónulegu samskipti sem urði á milli manna hérna en í BYR gekk þetta þannig fyrir sig að mönnum var í í raun hótað með því að þeir myndu missa stóran hluta af sínu ef þeir ekki tækju þátt. Og ég þekki sögur um það að eldra fólk hafi verið dregið út í horn og því annað hvort sagt að það væri að svíkja fyrirtækið ef það ekki tæki þátt eða þá að það væri að missa af öruggum lottóvinningi. Ef slíkar sögur eru raunveruleiki hérna þá er engin spurning um það í mínum huga að þið hafið verið plötuð,“ sagði Sveinn.

Einhver ber ábyrgð


Þá sagði Sveinn áhættustýringuna í SpKef mjög athyglisverða og vék máli sínu að ábyrgð stjórnenda.
„Ég þekki ekki hver er ábyrgur fyrir áhættustýringunni. Sparisjóðsstjóri er ábyrgur fyrir rekstrinum, það vitum við. Og formaður stjórnar ber líka mjög mikla ábyrgð. Eftir því sem ég fæ séð þá er Geirmundur Kristinsson sparisjóðsstjóri á þessum tíma og Þorsteinn Erlingsson mun hafa verið formaður stjórnar. Þetta eru þeir aðilar sem eru raun fulltrúar ykkar – það er stjórnin sem er fulltrúar ykkar í stjórn þessa fyrirtækis og hún ber svo aftur ábyrgð á sínum framkvæmdastjóra. Þeir árita ársreikninga og bera ábyrgð á útgefandalýsingu. Þannig að ef eitthvað kemur fram í þessum skjölum sem ekki er rétt, þá bera þessir menn ábyrgð. Það ber alltaf einhver ábyrgð,“ sagði Sveinn.


Eigið fé í hlutabréfum og lánum

Varðandi  áhættustýringuna þá sagði Sveinn það sérstakt að af þeim 25 milljarða hagnaði sem sagður var vera árið 2007 þá hafi meira en helmingurinn verið fólgin í eignum í hlutabréfum og hlutdeildarfélögum. Það sé sami hluturinn þegar betur er að gáð. Að stærstum hluta hafi verið um að ræða eignarhlut í félaginu Kista, sem haldið hafi utan um eignarhlutinn í Existu.
Sveinn sagði Existu hafa að stórum hluta keyrt SpKef í kaf. Athyglisvert sé að í lok 2008 hafi eigið fé verið sagt fimm og hálfur milljarður. 2,8 milljarðar  hafi legið í hlutabréfum og 3,3 milljarðar í útlánum undir flokki sem heitir „Annað“.

„Reynslan hefur sýnt mér að það er eitthvað sem ekki er þægilegt að flokka, gjarnan eignarhaldsfélög sem að því miður Rannsóknarskýrsla Alþingis sýnir okkur að fengu oft lán, 100% lán til að kaupa annaðhvort  mjög léleg hlutabréf eða jafnvel bréf í fyrirtækjunum sjálfum. Þessi eign - lán til annars - hækkaði úr 1,5 milljarði í 3,3 milljarða á árinu 2008. Það kann að skýrast að einhverju leyti af falli krónurnnar en í öllu falli – af þessum 5,5 milljörðum sem sagðir voru eigið fé fyrirtækisins, eru annaðhvort hlutabrér eða lán til annara,“ sagði Sveinn.


Ef púslinu er raðað saman kemur myndin í ljós

Sveinn nefndi aðkomu PricewaterhouseCoopers að Spkef á síðsta ári en þá hafi komið í ljós að nánast ekkert hafi verið eftir í búi SpKef.

„Þannig að þið leggið inn peninga í lok árs 2007. Einu og hálfu ári síðar eru þessir peningar líklega búnir. Ef eitthvað var eftir af þeim þá var það mjög lítið.
Í BYR myndaðist samstaða um það meðal stofnfjáreigenda að bjarga ætti fyrirtækinu í kjölfar þess að upplýst er um þetta hneyksli varðandi Exeter Holdings. Því miður tókst það ekki en menn voru samt sem áður að berjast fyrir réttlæti. Menn vilja að það sanna komi í ljós og menn vilja að þeir sem eru ábyrgir verði gerðir ábyrgir gjörða sinna. Það sem við höfum reynt að gera er að byggja okkar mál á staðreyndum. Það sem þið getið gert er í fyrsta lagi að skoða hlutina. Það er heilmikið til af útgefnum gögnum. En það sem skiptir miklu meira máli er allt það sem þið vitið. Ef þið viljið raunverulega að þeir sem eru ábyrgir verðir gerðir ábyrgir, þá talið hvert við annað. Ef púslinu verður raðað saman þá mun myndin koma í ljós. Þess er ég nokkurn veginn fullviss. Þetta er ekki það stórt samfélag hérna að menn viti í raun ekki hvað fór fram,“ sagði Sveinn.

Follow the money

„Það er bara um tvennt að velja að mínu mati: Í fyrsta lagi getum við sagt að fyrirtækið hafi farið á höfuðið vegna þess að það varð fyrir áfalli í kjölfar efnahagshrunsins. Ef svo er, þá hefur í öllu falli stjórnunin verið afar slök. Ég held að það sé það besta sem við getum sagt,“ hélt Sveinn áfram og sagði í versta falli væri hægt að draga þá ályktun að menn hafi „farið ránshendi um fyrirtækið“ líkt og virðist hafa gerst víða annars staðar.

Sveinn sagði síðustu kærur Fjármálaeftirlitisins til Sérstaks saksóknara sýna að bankakerfið hafi verið algjörlega helsjúkt á árunum fyrir Hrun. Sú kunni að hafa verið raunin með SpKef. „Þá er bara spurningin fyrir ykkur hvort þið viljið að það komi fram eða ekki. Ef þið viljið það, ekki treysta á aðra. Ef þið viljið að hlutirnir komi fram þá verðið þið að leggja ykkar af mörkum…ef þið viljið raunverulegan árangur þá gerið þið hlutina sjálf,“ sagði Sveinn. Í því skyni yrðu stofnfjáreigendur að sýna staðfestu. Ekki þýddi að leggja af stað nema menn væri ákveðnir í því að fara alla leið.

Sveinn sagði að skoða yrði lánamálin hjá SpKef– hverjir hafi fengið lán á sérstökum kjörum, hvaða fjárfestingar hafi verið framkvæmdar, hverjir hafi tekið út peninga og í hvað lánveitingarnar fóru. „Þetta er í rauninni ekkert sérstaklega flókið,“ sagði Sveinn og vitnaði til orða Evu Joly: „Follow the money”.

Djöfulsins lygaplagg

Sveinn hvatti stofnfjárhafana jafnframt til að lýsa kröfum í búið. „Það voru fjölmargir stofnfjáreigendur í BYR sem gerðu slíkt, að mínu mati mjög með réttu. Vegna þess að þær upplýsingar sem menn fengu í BYR, nánast á sama tíma og þið fengið upplýsingar, þær voru bara djöfulsins lygaplagg,“ sagði Sveinn sem hóf á loft áðurnefnda lýsingu á stofnfjárútboði SpKef og uppskar mikið lófaklapp viðstaddra.

VFmyndir/elg - Fjölmenni var á fundi stofnfjáreigenda SpKef í gær.




Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024