Deilt um stórhýsi í miðbæ Keflavíkur
Heitar umræður brutust út á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sl. þriðjudag, þegar skipulag að Aðalgötu 7-9 kom til umræðu, en Meistarahús ehf. hefur sóst eftir að reisa þar fjölbýlishús og gera stórt bílastæði við húsið. Ákveðið var að vísa málinu í bæjarráð en bæjarfulltrúar sáu sig samt sem áður knúna til að tjá sig um málið, og sitt sýndist hverjum.Skipulags- og bygginganefnd Reykjanesbæjar lagði til á fundi sínum 24. ágúst sl., að höfundur að deiliskipulagi bæjarins, Bjarni Marteinsson, yrði fenginn til að koma með tillögur varðandi umrætt svæði á grundvelli fyrirspurnar Meistarahúsa efh. um lóðina. Kristmundur Ásmundsson (J) benti á hversu mikil bygging þetta yrði og meðfylgjandi bílastæði, og slíkt samræmdist ekki útliti gamla bæjarins og því væri hann á móti því að húsið yrði reist á þessum stað.Kjartan Már Kjartansson (B) var sammála því að lóðin yrði nýtt undir fjölbýlishús og sagðist vera þeirrar skoðunar að byggingarlóðir í miðbænum væru verðmætar og þær ætti að nýta sem best.Kristmundur sagðist vera sammála því að lönd væru verðmæt, en það væri líka líðan fólks. „Er það vilji Kjartans að byggja þarna bílastæði og stórhýsi? Hann ætti bara að kaupa öll gömlu húsin og byggja þar stórhýsi því mannleg- og umhverfissjónarmið virðast ekki skipta neinu máli hjá honum“, sagði Kristmundur.Kjartan sagðist ekki ætla að karpa um þetta mál, en það væri ekki rétt af Kristmundi að gera sér upp hugsanir. „Það er ekki meining mín að steypa yfir allt og ég vil alls ekki kaupa hús í gamla bænum og byggja upp á nýtt. Þetta eru bara útúrsnúningar hjá Kristmundi. Það sem ég er að segja er, að það ætti að nýta umræddar lóðir sem best“, sagði Kjartan.Jóhann Geirdal (J) sagði það vera til skammar hvernig skipulagsmálum í bæjarfélaginu væri háttað. Hann benti á að búið væri að samþykkja deiliskipulag fyrir umrætt svæði, og því væri óhæft að taka þessa einu lóð út úr og skipuleggja hana eina og sér. „Íbúar vilja vita að hverju þeir ganga þegar þeir ákveða búsetu sína. Við hugsum ekki um heildina, hvað varðar skipulagsmál, heldur einstök svæði sem er ekki gott, því við eigum að bera virðingu fyrir skipulagslögum og tryggja þar með rétt íbúa þessa bæjarfélags“, sagði Jóhann og bætti því við að gamli bærinn væri einstaklega viðkvæmur skipulagslega séð, og því yrði að vanda sérstaklega vel til verksins.