Deildu um framhald framkvæmda við kísilver
- Málið nú leyst og framkvæmdir halda áfram
„Málið sem þarna um ræðir var leyst með samkomulagi á milli aðila og verkefnið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist,“ segir Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV, við Víkurfréttir. Greint er frá því á vef DV að ÍAV hafi í gær hótað að hætta framkvæmdum við kísilver United Silicon í Helguvík vegna ógreiddra reikninga. ÍAV er aðalverktaki við byggingu kísilversins. Á vef DV segir jafnframt að eigendur United Silicon hafi neitað að greiða reikningana vegna tafa ÍAV á vinnu við verkið. Forsvarsmenn fyrirtækjanna munu hafa hittst á fundi í gær og komist að samkomulagi um að ÍAV ljúki við fyrsta áfanga kísilversins fyrir lok þessa mánaðar.