Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Davíð Arthur og Sigurður menn ársins í Grindavík
Þriðjudagur 5. janúar 2010 kl. 12:04

Davíð Arthur og Sigurður menn ársins í Grindavík

Slökkviliðsmennirnir Davíð Arthur Friðriksson og Sigurður Halldórsson hafa verið valdir Grindvíkingar ársins fyrir frækilegt björgunarafrek sitt þann 30. desember síðastliðinn þegar þeir björguðu lífi Grétars Einarssonar sem fékk hjartaáfall á knattspyrnumóti í íþróttahúsi Grindavíkur. Heimasíðan leitaði til 15 einstaklinga í Grindavík til að velja Grindvíking ársins og fengu Davíð og Sigurður langflest atkvæði hjá álitsgjöfunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar Grétar hné niður á fótboltamótinu brugðust Davíð og Sigurður hratt við og stjórnuðu aðgerðum af yfirvegum og fagmennsku. Þeir skiptu með sér verkum og tókst með góðri hjálp að bjarga lífi Grétars.


,,Rökin eru stutt og skýr, mannslífi bjargað. Grétar Einarsson er enn á meðal okkar, kærar þakkir til þeirra Davíðs og Sigurðar," sagði í umsögn eins álitsgjafans.

Davíð Arthur er fæddur og uppalinn Grindvíkingur sem býr nú í Njarðvík. ,,Í mínum huga er Davíð Arthúr Friðriksson, ungi maðurinn sem bjargaði lífi fótboltamannsins í firmakeppninni, sá sem á að hljóta þennan titil í ár vegna snöggrar hugsunar og framkvæmda í kjölfarið sem varð til þess að bjarga lífi," segir annar álitsgjafi.

Sigurður er rafvirki og varaslökkviliðsstjóri í Grindavík. ,,Hann er maður sem tranar sér ekki fram en er allaf tilbúinn að aðstoða ef þess gerist þörf," sagði í umsögn annars álitsgjafans.

Þess má geta að báðir starfa þeir innan íþróttahreyfingarinnar. Davíð Arthur er í stjórn körfuknattleiksdeildar UMFG og Sigurður situr í stjórn knattspyrnudeildar UMFG.

Grétari heilsast eftir atvikum vel. Hann er búinn að fara í hjartaþræðingu og þarf að fara í minniháttar hjartaaðgerð bráðlega.

Mynd: Sigurður og Davíð Arthur, Grindvíkingar ársins.

www.grindavik.is