Dash 7 framkvæmdi öryggislendingu
-Viðvörunarljós um lendingarbúnað hafði kviknað í flugstjórnarklefanum
De Havilland Canada Dash 7 flugvél með 6 manns um borð lenti á Keflavíkurflugvelli um kl. 9:20 nú í morgun eftir að flugmenn vélarinnar höfðu tilkynnt um bilun í lendingarbúnaði vélarinnar, en viðvörunarljós um að nefhjólið hefði ekki farið niður kom upp í flugstjórnarklefanum. Lendingin var því flokkuð sem öryggislending og var slökkvilið Keflavíkurflugvallar í viðbragðsstöðu við flugbrautina.
Flugmenn vélarinnar ákváðu að taka eitt lágflug til að hægt væri að athuga frá jörðu niðri hvort nefhjólið væri niðri, áður en þeir hugðust lenda vélinni og staðfesti flugumferðarstjóri að ekkert óeðlilegt væri við lendingarbúnaðinn. Lendingin gekk eðlilega fyrir sig. Fréttamaður Víkurfrétta, Hilmar Bragi, náði þessari mynd af vélinni.
Lendingin tókst vel og var með eðlilegu móti.
Hér má sjá að viðbragðsaðilar voru tilbúnir sitthvoru megin við brautina.
VF-myndir/Hilmar