Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 8. nóvember 2000 kl. 11:22

Daprasta netaveiði að haustlagi í 15 ár-segir Oddur Sæmundsson útgerðarmaður Stafness KE

Togaraskipstjórar hafa kvartað sáran yfir tregum þorskafla í haust og margir eiga fullt í fangi með að sækja þann þorskskammt sem leyfilegur er í hverri veiðiferð. Netabátarnir suðvestanlands virðast engu betur settir. Það eru helst línubátarnir sem virðast geta krækt í fisk. „Þorskveiði í net á þessum árstíma hefur ekki verið svona treg síðustu 15 árin eins og nú er“, sagði Oddur Sæmundsson í viðtali við Fiskifréttir. „Það má helst líkja þessu við haustveiðina á tímabilinu 1980-86. Menn eru að slíta upp nokkur tonn í róðri og sumir eru farnir að taka upp gamla hætti og róa bara annan hvern dag. Ég held að þess verði ekki langt að bíða að netaveiðar að haustinu dragist saman nema farið verði að snúa sér meira að ufsanum. Það sem hjálpar til núna er að afurðaverð er mjög hátt og því fæst þokkalegt verð fyrir litla afla sem kemur á land. Nefna má að þriðji stærðarflokkur í saltfiski er nú á svipuðu verði og stærsti fiskurinn var fyrir þremur árum. Á móti kemur hins vegar að allur tilkostnaður við veiðarnar hefur hækkað mjög mikið, bæði olía, veiðarfæri og annað.“ Netin loðin af drullu Oddur telur skýringuna á tregum afla í netin vera í fyrsta lagi að það er minna um stóran fisk en áður, og í öðru lagi að skilyrðin í sjónum hafa verið óhagstæð í haust. „Stöðugar norðaustan- og austanáttir hafa torveldað sjósókn og dregið úr afla enda alkunnugt að þessar vindáttir hafa slæm áhrif á fiskiríið fyrir Suðaustur- og Suðvesturlandi á haustin. Þegar vindáttin snerist um daginn þá lifnaði yfir svæðinu eins og hendi væri veifað. Því miður stóð það stutt við og aftur sótti í sama farið. Þegar réttu skilyrðin koma gefur fiskur sig mjög víða. Hann virðist því vera til staðar. Svo má líka benda á að sjórinn er búinn að vera mjög heitur og á sumum svæðum er svo mikill gróður að það er eins og að draga netin upp úr fjóshaug, svo loðin eru þau af drullu. Það þarf því enginn að vera hissa á því að fiskurinn komi ekki við botninn við þannig skilyrði.“ Möskvinn smækkaður Fyrir nokkrum misserum reru netabátarnir almennt með 9 tommu riðil og jafnvel stærri til þess að fá fyrst og fremst stærsta og verðmesta fiskinn, en með smækkandi fiski í sjónum hafa menn fært sig neðar í möskvastærð. „Menn eru farnir úr 9 tommum niður í 8 og jafnvel 7 tommur. Við erum t.d. eingöngu með 8 tommu möskva og fáum samt ekki fisk. Jafnvel þótt menn setji út 6 tommu þá býr hún ekki til fisk. Málið snýst ekki bara um að fiskurinn sé svo smár heldur er hann dreifðari og skilyrðin í sjónum þannig að hann næst ekki. Það er þó ekki ástæða til þess að kvíða neinu. Við sem erum búnir að vera lengi í þessum veiðiskap höfum séð þetta allt áður. Það má segja að þessi þróun hafi byrjað í fyrrahaust, þá minnkaði aflinn mjög mikið. Hins vegar löguðust aflabrögðin verulega í desembermánuði og strax eftir áramótin og raunar alla vetrarvertíðina var fiskiríið í góðu lagi. Þegar kom fram í maí sl. sótti aftur í sama farið og þá urðu menn að smækka riðilinn í 6-7 tommur, eins og tíðkaðist fyrir 15 árum, en til samanburðar má nefna að allan síðasta áratug gátum við róið með 9 tommu möskva og fiskað vel árið um kring á þann riðil.“ Ufsinn að hressast Oddur hefur eins og aðrir skipstjórnarmenn orðið rækilega var við aukna ufsagengd á miðunum. „Við höfum fyrst og fremst veitt ufsa sem meðafla og erum nú að lenda í stórkostlegum vandræðum, því okkur eins og svo marga aðra, skortir kvóta á móti aukinni ufsagengd. Leiguverð á ufsakvóta er svo hátt og afurðaverð svo lágt að það er glórulaust að leigja kvóta. Þau tvö til þrjú skip í flotanum sem lagt hafa sig eftir ufsa upp á síðkastið, hafa fiskað afar vel og önnur eins ufsaveiði í net í kantinum austur af Vestmannaeyjum hefur ekki þekkst síðustu 10 árin. Það er lítið vitað um ufsastofninn en fiskifræðingar eru að leggja sig meira eftir því að rannsaka ufsann. Það er t.d. augljóst að hægt er að afla aukinnar vitneskju um stofninn með merkingum. Ég sat ásamt fulltrúum LÍÚ fund með sjávarútvegsráðherra og fiskifræðingum um daginn þar sem m.a. kom fram að ufsinn flakkar á einhverjum mæli milli lögsagna Noregs, Færeyja og Íslands og þegar uppsveifla er við Ísland minnkar ufsagengdin við Noreg og öfugt. Einnig kom fram að ef ufsinn kemur hingað u.þ.b. sem hann er kynþroska, við 6-7 ára aldur, snýr hann ekki aftur til baka. Það bendir til þess að ufsinn sem er að koma núna sé kominn til að vera“, segir Oddur. Því má bæta við að Stafnesið veiddi á milli 1600 og 1700 tonn af fiski á síðasta fiskveiðiári en báturinn hætti veiðum á lokadaginn 11. maí og var aðeins gerður út í átta mánuði. Aflinn er svipaður og fiskveiðiárið á undan. Þetta samsvarar nokkurn veginn tvöföldum úthlutuðum kvóta bátsins. Nokkur fiskveiðiár þar á undan var aflinn hins vegar mun meiri eða 2500-2800 tonn en þá veiddi báturinn mikið fyrir aðra. Tekið var fyrir það með tilkomu Kvótaþings.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024