Dagur ferðaþjónustunnar í dag
Óhætt er að segja að þessi dagur, þriðjudagurinn 15. Október, sé verði helgaður ferðaþjónustu á Reykjanesi því kl. 15:00 verður fundur í Eldey við Grænásbraut þar sem Íslandsstofa ætlar að kynna áherslur í markaðssetningu erlendis og Samtök ferðaþjónustunnar munu fara yfir helstu hagsmunamál greinarinnar. Strax í kjölfarið, eða kl. 17:00, verður svo aðalfundur Ferðamálasamtaka Reykjaness á sama stað en dagskrá þess fundar verður samkvæmt lögum félagsins.
„Á þessu ári höfum við í stjórn Ferðamálasamtakanna unnið að ýmsum verkefnum. Það sem ber kannski hæst er stefnumótum samtakanna sem lögð verður fyrir aðalfundinn. Til þess að við vitum hvert við ætlum að fara verður stefnan að vera á hreinu, hún er grunnur starfsemi félagasamtaka á borð við þessi, við getum ekki verið eins og stefnulaust rekald. Við höfum lagt mikla vinnu í stefnumótunina og ætlum að kynna hana fyrir félagsmönnum á aðalfundinum og fá umræður um hana áður en við tökum ákvörðun um næstu skref,“ sagði Sævar Baldursson formaður Ferðamálasamtaka Reykjaness.
„Ég vek athygli á nýrri heimasíðu Ferðamálasamtakanna en þar er að finna ýmsar upplýsingar um starfsemi þeirra. Þar má m.a. finna drög að stefnumótun samtakanna og eru aðildarfélagar hvattir til þess að kynna sér hana og taka þátt í umræðum á aðalfundinum. Stefnumótunin á að vera lifandi plagg sem uppfæra þarf reglulega. Í stefnumótuninni er að finna gildi, hlutverk og framtíðarsýn Ferðamálasamtaka Reykjaness og svo aðgerðaráætlun til að ná þessum markmiðum. Vonandi sjá flestir sér fært að mæta,“ sagði Sævar. Heimasíða samtakanna er www.ferdamalasamtokreykjaness.is
Stjórn Ferðamálasamtakanna samþykkti til bráðabirgða í vor að breyta seinna nafni samtakanna úr (Ferðamálasamatökum) Suðurnesja í (Ferðamálasamtök) Reykjaness. Lagabreyting um nafnabreytingu liggur einnig fyrir fundinum. Að sögn Sævars var þetta gert í ljósi þess að Markaðsstofa Suðurnesja breytti nafni sínu fyrr á árinu í Markaðsstofu Reykjaness. Þetta er líka í takt við Reykjanes Geopark jarðvanginn sem hefur verið í undirbúningi undanfarin misseri. Með því að gera þetta svona er samhljómur á milli þessara aðila. Að sögn Sævars hefur samstarfið þarna á milli verið mjög gott en sem kunnugt er voru gerðar skipulagsbreytingar hjá Markaðsstofunni Reykjaness í upphafi árs og nýr verkefnastjóri, Þuríður Halldóra Aradóttir, ráðin til starfa. Ekki verður stjórnarkosning að þessu sinni þar sem Sævar og stjórnin var í fyrra kosin til tveggja ára.
Vakin er athygli á því að aðeins fullgildir aðilar að FSR eiga atkvæðisrétt á aðalfundinum. Nýir félagar eru velkomnir. Félagaskrá er hægt að nálgast á heimasíðu FSR. Athugasemdir við félagaskrána skal senda á [email protected]
Til að vera gjaldgengur í FSR og eiga m.a. atkvæðisrétt á aðalfundinum 15. október nk. þarf að greiða 5.000 kr. félagsgjald, annað hvort fyrir aðalfundinn eða á fundinum sjálfum. Hægt er að leggja gjaldið beint inn á reikningsnúmer. Því miður var gefið upp rangt númer í síðustu Víkurfréttum. Rétt reikningsnúmer er: 0121-26-3570, kt. 540984-0429.
Fundur Íslandsstofu kl. 15:00 er öllum opinn og er sérstaklega fyrir þá sem hafa áhuga á erlendri markaðssetningu og hagsmunamálum ferðaþjónustunnar. Skráning á þann fund fer fram hjá Markaðsstofu Reykjaness á netfangið [email protected].